Álagning vatnsgjalds og aukavatnsgjalds

44. fundur
Mánudaginn 28. nóvember 1994, kl. 17:22:43 (2004)

[17:22]
     Fyrirspyrjandi (Kristinn H. Gunnarsson) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka ráðherra svörin en held áfram því sem ég átti eftir ólesið og það er um síðari efnisbreytinguna í umræddri breytingareglugerð sem ég gerði að umtalsefni. Hún fjallar sem fyrr segir um heimild til sveitarstjórnar að ákveða hærra aukavatnsgjald en kveðið er á um í 10. gr. reglugerðar. Í 8. gr. laganna er ákvæði um hámark aukavatnsgjalds. Það kom inn í meðförum Alþingis og var sett til þess að taka af öll tvímæli um að ekki væri verið að framselja sveitarfélögum eða ráðherra sjálfdæmi um upphæð gjaldsins. Var með ákvæðinu félmrh. gert að setja í reglugerð hámark aukavatnsgjalds. Sveitarfélögin yrðu síðan að ákveða gjaldskrá sína og hafa hana innan hámarksins. Kveðið er á um umrætt hámark í 10. gr. reglugerðar um vatnsveitur sveitarfélaga eins og kom fram hjá hæstv. ráðherra áðan og er það ákveðið 15 kr. á rúmmetra miðað við byggingarvísitölu í október 1991.
    Ég fæ ekki séð að lögin heimili ráðherra að ákveða breytilegt hámark eftir sveitarfélögum né heldur að heimilt sé að fara upp fyrir hámarkið 15 kr. á rúmmetra við tilteknar aðstæður. Því ber ég fram þær fyrirspurnir sem eru á þskj. 202 undir 2. og 3. tölulið og var ráðherra þegar búinn að svara 2. lið og les

ég þá upp þá síðari sem er 3. töluliður:
    ,,Hvaða kostnaði á, að mati ráðherra, aukavatnsgjald að mæta við framkvæmdir og rekstur vatnsveitu?``
    Þessi fsp. er borin fram til að fá fram afstöðu ráðuneytisins til þess hvaða kostnaði gjaldið megi mæta samkvæmt lögunum.
    Ég vil segja í tilefni af svörum hæstv. ráðherra við 2. tölul. og reyndar líka 1. tölul. að ég heyrði ekki í þeim svörum neinn rökstuðning fyrir því að lögin heimiluðu það frávik sem er í breytingareglugerðinni. Annars vegar að vatnsgjald gæti verið tengt við rúmmál fasteigna. Það er skýrt í lögunum að það er einungis bundið við álagningarstofn eins og hann er skilgreindur í 7. gr. laganna.
    Ég heyrði heldur ekki rökin fyrir því að lögin heimili breytilegt hámark eftir sveitarfélögunum eins og raunar er spurt um í 2. tölul. þannig að eftir standa spurningar mínar þó hæstv. ráðherra hafi gefið sín svör að þessu leyti.