Arðgreiðslur vatnsveitu

44. fundur
Mánudaginn 28. nóvember 1994, kl. 17:33:03 (2008)


[17:33]
     Fyrirspyrjandi (Kristinn H. Gunnarsson) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin en ég bendi á að þótt það sé rétt sem kemur fram máli hæstv. ráðherra að gjaldskrár sveitarfélaga þurfi ekki staðfestingu ráðherra þá ber að setja þær samkvæmt lögum. Í 11. gr. laga um vatnsveitur sveitarfélaga er kveðið á um það að gjaldskrá sveitarstjórna á að kveða á um greiðslu og innheimtu gjalda skv. 7., 8. og 9. gr. laganna. Í þessum greinum laganna eru engar heimildir veittar til þess að taka slíkt gjald af vatnsveitu til sveitarsjóðs nema af þeim hluta vatnssölunnar sem er til annarra sveitarfélaga.
    Ég ber þetta mál upp, virðulegi forseti, vegna þess að það er mikilvægt að menn átti sig á því að vatnsgjald er gjald sem er innheimt til að mæta tilteknum kostnaði. Því er nauðsynlegt að það sé vel skilgreint hver kostnaðurinn er sem gjaldið á að mæta og í öðru lagi að sveitarfélögin innheimti ekki hærra gjald en sem nemur kostnaðinum því að þá er um að ræða dulbúna skattheimtu. Ég hef rakið það að á síðustu tveimur árum, 1992 og 1993, nemur þessi dulbúna skattheimta sveitarfélaganna um 1 milljarði kr. umfram þann kostnað sem sýndur hefur verið samkvæmt árbókum sveitarfélaga. Það skiptir því máli að menn fylgist með þessu og kveði upp úr um það hvaða kostnað er réttlætanlegt að færa til gjalda. Í þessu tilviki er þetta greinilega atriði sem þarf að skoða. Ég er ekki að segja að það sé endilega óeðlilegt að fyrirtæki, borgarstofnanir, greiði afgjald til borgarsjóðs. Hins vegar er ég að segja að menn eiga ekki að innheimta það nema hafa lagastoð fyrir því. Það er greinilegt, virðulegi forseti, að á meðan Sjálfstfl. fór með völd í Reykjavíkurborg innheimti hann vatnsgjald um 30% hærra en þurfti til. Það má vera nokkur kjarabót ef menn geta lækkað þennan skatt dálítið mikið.