Framkvæmd jafnréttislaga

44. fundur
Mánudaginn 28. nóvember 1994, kl. 17:41:42 (2011)


[17:41]
     Félagsmálaráðherra (Rannveig Guðmundsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Hv. þm. Guðný Guðbjörnsdóttir hefur beint til mín fyrirspurn í tveimur liðum. Í fyrsta lagi spyr þingmaðurinn um eftirlit með framkvæmd þeirra ákvæða laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla sem varða launamál og menntamál. Í öðru lagi er spurt um það hvort áformað sé að efla eftirlit með framkvæmd jafnréttislaga, t.d. með stofnun embættis umboðsmanns jafnréttismála sem hefði það hlutverk, auk kærunefndar og dómstóla, að fylgja eftir framkvæmd jafnréttislaga eins og tíðkast á Norðurlöndum.
    Að því er varðar fyrri lið fyrirspurnarinnar vil ég vekja athygli á því að skv. 1. tölul. 16. gr. gildandi jafnréttislaga er það hlutverk Jafnréttisráðs að vinna að því að ákvæðum laganna sé framfylgt. Hins vegar er tekið sérstaklega fram í niðurlagi 10. gr. að menntmrn. beri ábyrgð á framkvæmd þeirrar greinar sem fjallar um menntun í samráði við Jafnréttisráð. Jafnréttisráð og skrifstofa jafnréttismála vinna að þessu verkefni sem og öðrum með margvíslegum hætti, útgáfustarfsemi, fundum og ráðstefnum, t.d. jafnréttisþingi sem haldið var í fyrsta skipti haustið 1993. Samstarf menntmrn. og Jafnréttisráðs á þessu sviði hefur alltaf verið mikið og gott og t.d. átti Jafnréttisráð fulltrúa í starfshópi menntmrn. sem vann tillögur að mótun stefnu, markmiða og leiða um jafna stöðu kynja í skólum. Samkvæmt þeim tillögum var sett á laggirnar framkvæmdanefnd á vegum menntmrn. sem hafði það hlutverk að hrinda í framkvæmd þeirri stefnu. Samstarf framkvæmdanefndarinnar og Jafnréttisráðs hefur verið töluvert og er m.a. í gangi samvinnuverkefni um gerð námsefnis um náms- og starfsfræðslu fyrir efstu bekki grunnskólans.
    Ég vil einnig vekja sérstaka athygli á 17. gr. laganna en þar segir að félmrh. leggi fyrir Alþingi till. til þál. um áætlun jafnréttismála til fjögurra ára í senn að fengnum tillögum einstakra ráðuneyta og Jafnréttisráðs. Í áætluninni komi fram sundurliðuð framkvæmdaáform og áætlaðar fjárveitingar til einstakra verkefna sem tengjast jafnréttismálum. Áætlun þessa skal endurskoða á tveggja ára fresti og í tengslum við það leggur félmrh. fram á Alþingi skýrslu um stöðu og þróun jafnréttismála.
    Gildandi jafnréttisáætlun var samþykkt vorið 1993 og á að endurskoða hana vorið 1995. Skrifstofu jafnréttismála var falið að hafa eftirlit með framgangi áætlunarinnar og gefa ráðherra og Alþingi skýrslu þar að lútandi vorið 1995. Samkvæmt upplýsingum frá skrifstofu jafnréttismála verður sú vinna unnin á fyrri hluta næsta árs.
    Hvað varðar nánari upplýsingar um eftirlit og upplýsingar um framgang einstakra verkefna sem vinna á að samkvæmt framkvæmdaáætluninni vísa ég til þskj. 264. Þar er að finna skriflegt svar við fyrirspurn til forsrh. um eftirlit með og framkvæmd á einstaka verkefnum framkvæmdaáætlunarinnar. Skrifstofa jafnréttismála hefur tekið saman greinargerð um framgang fyrri framkvæmdaáætlana og hafa þær verið felldar inn í skýrslu félmrh. um stöðu og þróun jafnréttismála sem var fyrirhugað að leggja fyrir síðasta þing en því var frestað. Þessi skýrsla hefur verið yfirfarin og teknar inn í hana nýjar upplýsingar. Ég stefni að því að hún verði lögð fyrir Alþingi öðru hvoru megin við áramót. Í ljósi þessa vil ég frekar mælast til þess að efnislegar umræður nái að fara fram á þeim tíma þegar skýrslan um stöðu og þróun jafnréttismála verður tekin til umfjöllunar á Alþingi sem verður vonandi innan skamms.
    Að því er varðar hinn hluta fyrirspurnarinnar um stofnun embættis umboðsmanns jafnréttismála vil ég á þessu stigi málsins vekja á því athygli að kærunefnd jafnréttismála hefur starfað í tæp þrjú ár. Þetta er það skammur tími að vafasamt verður að telja að full reynsla hafi fengist af þessu fyrirkomulagi. Þar af leiðandi er ég ekki á þessari stundu reiðubúin til að taka afstöðu til þess hvort stofna beri embætti umboðsmanns jafnréttismála. Hins vegar get ég þess að kærunefnd jafnréttismála á mjög gott samstarf við umboðsmenn jafnréttismála annars staðar á Norðurlöndum sem eiga með sér reglulega samráðsfundi. Þannig hittist á að einn slíkur samráðsfundur er haldinn hérlendis þessa dagana og ég mun hitta umboðsmennina í kvöld og að sjálfsögðu nota tækifærið og afla mér upplýsinga um reynsluna af þessu fyrirkomulagi varðandi ábendinguna eða vangavelturnar um hver skýring sé á að svo hægt gangi hjá okkur í jafnréttimálum þrátt fyrir hin góðu lög. Ég get alveg tekið undir það að ekki síst í þessum málaflokki á það mjög vel við að vilji er allt sem þarf. En það segir ekki að við þurfum ekki lög og hefur verið reynt að setja þau, framkvæmdaáætlun og allt það sem hér hefur komið fram og ég vona að okkur takist að ná settu markmiði.