Reykjavíkurflugvöllur

44. fundur
Mánudaginn 28. nóvember 1994, kl. 17:56:31 (2016)


[17:56]
     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Eftir að stríðinu lauk var herflugvöllur Breta í Reykjavík aðalflugvöllur landsins, bæði fyrir innanlands- og utanlandsflug. Smátt og smátt þyngdust flugvélarnar sem notuðu flugvöllinn og umferðin óx. Um 1960 er farið að nota flugvélar af gerðinni DC-4 og DC-6 og fór þá fljótlega á bera á skemmdum í yfirborði brautanna.
    Á árunum 1963--1964 voru gerðar umfangsmiklar athuganir á burðagetu brautanna og var þá svo komið að steypta slitlagið var mölbrotið þar sem undirstaðan var veikust. Á árunum 1965--1972 voru veikustu hlutar brautarinnar endurbyggðir og einnig var norður/suður brautin lengd til suðurs og austur/vestur brautin lengd til austurs á þeim árum. Lengd norður/suður brautar er 1.749 metrar og lengd austur/vestur brautar 1.453 metrar. Báðar þessar brautir eru 45 metra breiðar. Stysta brautin með stefnu í suðvestur/norðaustur er 960 metra löng og 30 metra breið.
    Um svipað leyti og endurbæturnar á Reykjavíkurflugvelli hófust fengu Loftleiðir hf. aðstöðu fyrir allt sitt flug á Keflavíkurflugvelli og létti þá stórum á umferð um Reykjavíkurflugvöll. Nokkrum árum seinna var allt millilandaflug flutt til Keflavíkurflugvallar og hefur að mestu verið þar síðan en Reykjavíkurflugvöllur hefur fyrst og fremst þjónað innanlandsfluginu. Við það létti svo mikið á umferð um völlinn að hægt hefur verið svo lengi sem orðið er að fara í endurbætur á flugvellinum. Ljóst er að svo mikilvægur flugvöllur yrði ekki byggður eins og að ofan var lýst ef hann yrði byggður nú enda forsendur um þunga flugvéla og fjölda lendinga allt aðrar en var á stríðsárunum.
    Um langa hríð hefur staðið til að fara í endurbætur á flugbrautum og flughlöðum við Reykjavíkurflugvöll og hafa ýmsar opinberar nefndir gert tillögur þar um, svo sem flugmálanefnd í tillögu um 10 ára framkvæmdaáætlun sem birt var árið 1986, en nefndin taldi endurnýjun slitlags á flugbrautum Reykjavíkurflugvallar vera forgangsverkefni í flugsamgöngum. Verkið hefur þó dregist m.a. vegna þess að endurbætur á flugvöllum úti á landi hafa verið taldar brýnni.
    Í endurskoðaðri flugmálaáætlun 1994--1997 sem samþykkt var á Alþingi fyrr á þessu ári er gert ráð fyrir að hefja framkvæmdir við endurbætur flugbrauta Reykjavíkurflugvallar á árinu 1997. Áður en hafist verður handa við framkvæmdir þarf að safna saman nákvæmum upplýsingum um uppbyggingu flugvallarins, rannsaka nákvæmlega burðarþol flugbrauta og gerð undirstöðu, gera áætlanir um endurbætur o.s.frv. Þessar athuganir þarf að vinna tímanlega svo að hægt verði að taka ákvörðun um framkvæmdir á grundvelli raunhæfra kostnaðaráætlana á árinu 1996, um einu ári áður en framkvæmdir eiga að hefjast.
    Til að undirbúa þessa vinnu var ákveðið að byrja á ástandskönnun flugvallarins með söfnun gagna um uppbyggingu vallarins ásamt forrannsóknum á undirstöðu og yfirborði flugbrauta og flughlaða. Þessar athuganir hófust í raun á árinu 1993 og lauk nú í haust. Nú er verið að vinna að skýrslu um ástand flugvallarins sem væntanlega verður tilbúin í byrjun næsta árs. Þá er einnig gert ráð fyrir að tillögur um endurbætur á flugvellinum liggi fyrir í byrjun næsta árs. Fyrstu niðurstöður rannsókna þeirra sem verið er að vinna benda til þess að burðarlagið undir vellinum sé veikt, en hins vegar er slitlagið sem samanstendur af steypu og malbiki þykkra en venjulegt er og upphefur það að nokkru leyti veika undirstöðu. Ekki er lokið athugunum á hvernig best er að standa að úrbótum á þessu né hversu umfangsmiklar slíkar endurbætur þyrftu að vera. Hins vegar er nú þegar ljóst að kröfur þær sem almennt eru gerðar um hliðarhalla á brautum vegna afvötnunar og kröfur um sléttleika á brautum eru óvíða uppfylltar á flugbrautum Reykjavíkurflugvallar. Sama gildir reyndar um flughlöð að kröfu til afvötnunar eru ekki uppfylltar eins og allir þeir farþegar vita sem vaðið hafa polla á leið sinni í flugvél.
    Tækjabúnaður Reykjavíkurflugvallar er nokkuð góður, snjóhreinsibúnaður og slökkvibúnaður hefur verið að mestu endurnýjaður á undanförnum árum. Aðflugs- og ljósabúnaður er að mestu í sæmilegu

standi en ráðgert er að endurnýja hluta aðflugsbúnaðar á næsta ári.
    Þá má einnig geta þess að verið er að endurnýja veðurmælibúnað fyrir flugvöllinn.
    Spurt er: Hvenær er fyrirhugað að byggja nýja flugstöð fyrir innanlandsflugið?
    Svar: Engin ákvörðun hefur verið tekin um byggingu nýrrar flugstöðvar fyrir innanlandsflug og er slík framkvæmd ekki í flugmálaáætlun fyrir árið 1994-- 1997 enda talið brýnna forgangsverkefni að endurbæta flugbrautirnar.