Reykjavíkurflugvöllur

44. fundur
Mánudaginn 28. nóvember 1994, kl. 18:01:32 (2017)


[18:01]
     Fyrirspyrjandi (Guðmundur Hallvarðsson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka ráðherra fyrir skeleggt og gott svar, yfirgripsmikið svar, um ástand flugbrauta Reykjavíkurflugvallar. Það var þó tvennt sem ég hjó eftir. Í fyrsta lagi það að hann kom að lendingarbúnaði vallarins sem að mestu væri í sæmilegu ástandi. Ég vona að það sé um stundarbil sem það sé. Auðvitað þarf þetta að vera í mjög góðu lagi.
    Með tilliti til þess sem ég sagði áðan vegna fjölda farþega sem koma um Reykjavíkurflugvöll þá má það liggja ljóst fyrir að nokkuð þarf að huga að nýbyggingu flugafgreiðslu vegna þess hvernig þau hús sem nú eru fyrir eru orðin og með tilliti til þess sem verið er að gera annars staðar á landinu með byggingu flugstöðva þá sé ekki óeðlilegt þó Reykjavík verði tekin þar inn í á einhverju ákveðnu tímabili og helst væri eðlilegt að það yrði gert fyrr en talað er um að það sé ekkert hugað að nýbyggingu á árunum 1994-- 1997.