Tölvubúnaður fyrir textasíma

44. fundur
Mánudaginn 28. nóvember 1994, kl. 18:10:14 (2021)


[18:10]
     Fyrirspyrjandi (Svavar Gestsson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. heilbr.- og trmrh. fyrir svörin. Ég met þau svo að hann muni beita sér fyrir því að fjármunir fáist til að greiða þessa textasíma annaðhvort í fjáraukalögum fyrir árið 1994 eða í fjárlögum fyrir árið 1995 og ég vil lýsa því yfir að ég styð hann í því að þetta mál verði tekið inn á fjáraukalög því auðvitað verður að afgreiða málið núna. Staðreyndin er sú að það er bersýnilega tekin þarna ákvörðun um að bjóða út þessi tæki, þessa textasíma upp á 18--25 millj. kr. án þess að neinir peningar hafi verið til fyrir því á fjárlögum ársins 1994. Það er mjög merkilegt að slík ákvörðun skuli vera tekin í heilbr.- og trmrn. Ég skil það vel að það vefjist fyrir mönnum að finna þá peninga til að leysa málið fyrst svona stendur á en ég sé ekki betur en málið standi þannig að ríkið sé skuldbundið til að borga þetta úr því að útboðið hefur farið fram með lögformlegum hætti á vegum Ríkiskaupa svo sérkennilega sem að málinu er staðið. Ég vil því einfaldlega taka undir það með hæstv. ráðherra, ég tel að það eigi að sjá þessu máli farborða með ákvæðum í fjáraukalögum sem þýðir að það yrði þá afgreitt núna í næsta mánuði eða í versta falli í fjárlögum fyrir árið 1995 þannig að það verði hægt að kaupa þessi tæki í allra síðasta lagi í janúarmánuði en það á auðvitað að vera hægt að gera það í næsta mánuði um leið og fjáraukalagafrv. kemur til meðferðar.
    Ég tel satt að segja að þetta sé allt mjög sérkennilegt hvernig að aðdraganda málsins er staðið en um það ætla ég ekki að ræða hér frekar þar sem þeir sem helst ættu að svara fyrir það eru ekki viðstaddir en þakka hæstv. ráðherra að öðru leyti fyrir svörin.