Samningur um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunar

45. fundur
Þriðjudaginn 29. nóvember 1994, kl. 13:40:30 (2025)


[13:40]
     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. á þskj. 269 um fullgildingu samnings um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar. Tillagan hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að fullgilda fyrir Íslands hönd samning um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunar sem undirritaður var í Marakess í Marokkó 15. apríl 1994.``
    Með aðild Íslands að GATT árið 1968 var fyrsta skrefið stigið til að losa um þá viðskiptafjötra sem bundu íslenskt efnahagslíf. Þátttaka í GATT tryggði betur réttarstöðu Íslands í alþjóðaviðskiptum og hlutdeild í þeim efnahagsávinningi og aukningu viðskipta sem GATT átti þátt í að skapa m.a. með tollalækkunum og afnámi annarra viðskiptahindrana.
    Aðildin hefur því þjónað íslenskum hagsmunum vel enda eiga Íslendingar mikið undir greiðum og öruggum milliríkjaviðskiptum.
    Á ofanverðum áttunda áratugnum gekk yfir hagkerfi heimsins alvarlegasta stöðnunartímabil frá síðari heimsstyrjöld þar sem einhliða aðgerðir og verndarstefna hömluðu efnahagsþróun. Í ljós kom að GATT-reglur í þeirri mynd sem mótast höfðu frá 1947 svöruðu ekki lengur kalli tímans. Reglur vantaði um ný svið efnahagsstarfsemi sem ekki höfðu áður fallið undir GATT svo sem þjónustuviðskipti og hugverkaréttindi. Að auki urðu þær kröfur sífellt háværari að stemma yrði stigu við þeirri þróun í landbúnaðarviðskiptum sem fólst í því að ríki undirbuðu hvert annað á heimsmarkaði og gripu til annarra aðgerða og með tilheyrandi kostnaði fyrir skattborgara landanna og neytendur. Einnig knúðu þróunarlöndin á um að viðskipti með vefnaðarvörur yrðu lagaðar betur að GATT-reglum. Ákvörðun aðildarríkja GATT að ráðast í samningaviðræður sem mundu í raun gerbreyta hinu alþjóðlega viðskiptaumhverfi voru rökrétt viðbrögð við þessum aðsteðjandi vanda í hagkerfi heimsins.
    Úrúgvæ-viðræðurnar, sem hófust með ráðherrafundi í Punta del Este árið 1986, eru viðamestu og flóknustu viðræður sem átt hafa sér stað til þessa af þessu tagi.Viðfangsefnum þeirra má skipta í fimm meginþætti:
    1. Aðgerðir til opnunar markaða með tollalækkunum og afnámi annarra viðskiptahafta sem eru hin hefðbundnu viðfangsefni GATT.
    2. Samningar sem miða að því að styrkja reglur GATT. Undir þetta má t.d. fella samninginn um landbúnaðarviðskipti sem felur í sér sérreglur um það svið og miðar að því að laga þennan þátt milliríkjaverslunar að svipuðum viðskiptaháttum og ríkt hafa á öðrum sviðum vöruviðskipta.
    3. Samningar um ný svið efnahagsstarfsemi sem engar alþjóðareglur hafa gilt um til þessa, svo sem þjónustuviðskipti og vernd hugverkaréttinda í viðskiptum.
    4. Að gera lausn deilumála skilvirkari en áður, m.a. með ákveðnari tímafrestum.
    5. Alþjóðaviðskiptastofnun er sett á laggirnar, stofnun sem mun mynda ramma utan um hina nýju samninga.
    Niðurstöður Úrúgvæ-viðræðnanna hafa að geyma samning um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar og viðauka við þann samning. Í viðaukunum er að finna GATT-samninginn, sérsamning á sviði vöruviðskipta, samning um þjónustuviðskipti, samning um hugverkarétt og reglur um málsmeðferð við lausn deilumála, auk samþykktar um heildarathugun á viðskiptastefnu aðildarríkjanna.
    Á ráðherrafundinum í Marakess voru nokkrar ráðherraákvarðanir og viljayfirlýsingar samþykktar sem eru almenns eðlis og flestar þegar komnar til framkvæmda. Þær fjalla m.a. um störf nefndar til að undirbúa stofnsetningu hinnar nýju alþjóðastofnunar, áframhald viðræðna um viðskipti og umhverfismál og á nokkrum sviðum þjónustuviðskipta sem ekki tókst að lúka í Úrúgvæ-viðræðunum.
    Almennt er viðurkennt að samningurinn um Alþjóðaviðskiptastofnunina muni leiða til aukinna heimsviðskipta, aukins hagvaxtar, aukinnar atvinnu og bættra lífskjara. Erfitt er að áætla nákvæmlega hve mikill heimsávinningur verður eða vöxtur í heimsviðskiptum, þó er talið að vöxtur heimstekna og viðskipta verði verulegur. Sérfræðingar GATT telja að niðurstaðan verði sú að gera megi ráð fyrir að heimstekjur verði árið 2005 a.m.k. 515 milljörðum Bandaríkjadala umfram það sem mundi vera án niðurstöðu þessara samninga.
    Hvað sem öllum spám líður er ljóst að Alþjóðaviðskiptastofnunin og samningar á vegum hennar munu leiða til betra efnahagsástands fyrir aðildarríkin á Íslandi sem í öðrum ríkjum. Það er ekki síst mikilvægt fyrir minni lönd, sem vegna smæðar heimamarkaða sinna eru afar háð greiðum milliríkjaviðskiptum. Mikilvægt er fyrir Ísland að tryggja sér hlutdeild í þessum ávinningi frá upphafi.
    Með EFTA-samningnum, EES-samningnum og fríverslunarsamningum við Mið- og Austur-Evrópuríkin hefur Ísland tryggt sér greiðan aðgang fyrir útflutningsafurðir sínar að helstu mörkuðum Evrópu. Kröfur Íslands í Úrúgvæ-viðræðunum um tollalækkanir beindust því einkum að öðrum ríkjum, þ.e. Bandaríkjunum, Kanada, Japan og Suður-Kóreu. Fyrst og fremst var um að ræða kröfur um tollalækkanir fyrir fisk og fiskafurðir og vörur tengdar sjávarútvegi, t.d. tölvuvogir, fiskkassa, net og önnur tæki við veiðar og vinnslu. Einnig voru gerðar kröfur um ullarvörur og vatn. Skrifstofa GATT hefur reiknað út hversu miklar tollalækkanir á fiski og fiskafurðum annars vegar og öðrum iðnaðarvörum hins vegar felast að meðaltali í tilboðum þessara ríkja miðað við útflutning þeirra ára sem lögð voru til grundvallar í viðræðunum, þ.e. áranna 1988--89. Nánari grein er gerð fyrir þessum útreikningum og í fylgiskjali II. með þáltill.
    Það er skemmst frá því að segja að útkoman er álitleg. Þær tollalækkanir sem náðust fram í Úrúgvæ-viðræðunum opna íslensku atvinnulífi aukna möguleika til sóknar, einnig á nýjum mörkuðum.
    Samstarfsnefnd fimm ráðuneyta hefur unnið að því að kanna þær lagabreytingar sem gera þarf vegna gildistöku samningsins um Alþjóðaviðskiptastofnunina. Það er talið nauðsynlegt að fella úr gildi eða breyta 10 lagabálkum. Má þar nefna tollalög, lög um einkaleyfi, búvörulög, lög um verslunaratvinnu og hlutafélagalög. Viðamesta verkefni nefndarinnar er án vafa að gera tillögur um hvernig haga skuli framkvæmd landbúnaðarsamningsins hér á landi með breytingu á búvörulögum og tollalögum. Það hefur verið sjónarmið utanrrn. að við framkvæmd samningsins verði tekið tillit til hagsmuna bænda jafnt sem neytenda. Með landbúnaðarsamningnum eru í fyrsta sinn settar grundvallarreglur sem miða að því að laga þennan þátt alþjóðaviðskipta að frjálsari viðskiptaháttum. Þetta verður gert einkum með þrennum hætti.
    Í fyrsta lagi eru settar reglur um beitingu innanlandsstyrkja. Markmiðið er að setja skorður við og draga úr styrkjum til að framleiðslan verði háðari kröfum markaðarins. Er þess vænst að það dragi úr offramleiðslu hjá aðildarríkjum.
    Í annan stað verður dregið úr útflutningsbótum bæði í formi beinna fjárframlaga og magns þeirra vara sem njóta útflutningsbóta. Þetta er gert til að stemma stigu við því að ríki heims noti ríkisstuðning til að styrkja samkeppnisstöðu sína í milliríkjaviðskiptum. Þar sem innanlandsstyrkir hafa þegar verið lækkaðir að því marki sem krafist er í samningnum og útflutningsbætur aflagðar er ekki nauðsynlegt af Íslands hálfu að gera frekari ráðstafanir hvað það varðar vegna þessa samnings.
    Í þriðja lagi verður stuðlað að opnun markaða hjá aðildarlöndum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar. Meginreglan er fólgin í því að tollar munu leysa af hólmi magntakmarkanir og aðrar innflutningshindranir. Í mörgum tilfellum geta þessir tollar orðið mjög háir. Hins vegar verður að skera þá niður um a.m.k. 15% eða að meðaltali um 36% á árunum 1995 til ársins 2001.
    Grundvallaratriði er að innflutningstollar séu skýrir og fyrir fram ákveðnir innan þess hámarks sem heimilt er. Jafnframt verða öll aðildarríki að leyfa tiltekinn lágmarksaðgang á lægri tollum. Magnið sem hleypt verður inn í landið með þessum hætti skal nema 3--5% af innanlandsneyslu vörunnar og verða tollarnir á því magni ekki hærri en nemur þriðjungi af hámarkstollum. Gildir þetta fyrir þær vörur sem ekki hafa verið fluttar inn áður eða þær fluttar inn í hverfandi litlu magni. Auk þess verður að tryggja þann markaðsaðgang áfram sem fyrir hendi var á viðmiðunartímanum. Með öðrum orðum mega þeir tollar sem koma í stað magntakmarkana og annarra innflutningshindrana ekki verða til þess að markaðsaðgangur skerðist miðað við viðmiðunartímabilið. Við þessa útreikninga er miðað við meðaltal áranna 1986--88. Loks verða alger innflutningsbönn að byggjast á vísindalegum forsendum um að heilbrigði dýra og manna sé stefnt í hættu.
    Samráðsnefndin er enn að ræða álagningu rauntolla og meðferð kvóta vegna lágmarksaðgangs og ríkjandi markaðsaðgangs en tillagna nefndarinnar er að vænta fljótlega.
    Samningar þessir munu hafa í för með sér breytingar fyrir viðskiptaumhverfi íslensks landbúnaðar en um kollsteypu verður sannarlega ekki að ræða. Samningurinn mun stuðla að lækkandi vöruverði smám saman með aukinni samkeppni og hagræðingu jafnframt því að losa um afskipti ríkisvaldsins af þessari framleiðslu. Samningurinn felur í sér að nauðsynlegt er að opna fyrir innflutning á erlendum vörum en þó á þeim kjörum sem skerðir ekki samkeppnisstöðu íslenskra framleiðenda. Hins vegar mun hin erlenda samkeppni gefa neytendum valkost jafnframt því að vera framleiðendum innan lands hvati til frekari átaka á sviði vöruþróunar og verðlækkunar.
    Þetta umbótaferli mun snerta öll aðildarríki Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar og mun ekki síst nýtast þeim ríkjum sem minnst mega sín í alþjóðaviðskiptum og á ég þar við þróunarríkin og ríki Mið- og Austur-Evrópu, sem standa enn á brauðfótum í heimi alþjóðaviðskipta.
    Í Úrúgvæ-viðræðunum og starfi GATT áttu Norðurlöndin afar náið samstarf og töluðu einni röddu í flestum málum. Jafnframt gerði það þeim kleift að hafa mun meiri áhrif í viðræðunum en ella. Þessi samvinna reyndist Íslandi því vel og auðveldaði fulltrúum Íslands að fylgjast með og taka þátt í störfum GATT en ekki þarf að undirstrika það að þetta er geysilega flókið viðræðuferli og víðtækt.
    Tengsl viðskipta- og umhverfismála eru einn af hinum nýju málaflokkum sem ræddir voru meðan á Úrúgvæ-viðræðunum stóð. Sú umræða fékk aukinn byr í kjölfar Ríó-ráðstefnunnar árið 1992 sem leiddi til þess að ráðherrar þátttökuríkjanna samþykktu yfirlýsingu sem tryggir að þessi málaflokkur verður ofarlega á dagskrá Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar í framtíðinni. Nauðsynlegt er að Ísland taki virkan þátt í þeirri umræðu og fylgist þar náið með því þar er margs að gæta.
    Ríkin hafa tekið til við að fullgilda samninginn og gert er ráð fyrir að stofnunin geti tekið til starfa nú um áramótin. Við stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar eru ákvæði GATT-samningsins frá 1947 felld undir stofnunina sem kennd er við GATT árið 1944. GATT 1947 stendur jafnframt áfram þar til öll ríki hafa sagt honum upp. Þau ríki sem ekki hafa fullgilt samninginn um Alþjóðaviðskiptastofnunina við gildistökuna hafa enga kröfu til þeirra réttinda sem hin nýja stofnun og samningar hennar veita. Jafnframt tapa þau núverandi réttindum samkvæmt GATT-samningnum 1947 gagnvart þeim ríkjum sem segja þeim samningi upp við aðildina að Alþjóðaviðskiptastofnuninni en Bandaríkjamenn hafa lýst því yfir að þeir muni hafa þennan háttinn á.
    Í ljósi alls þessa þarf ekki að orðlengja um mikilvægi þess að af fullgildingu samningsins um Alþjóðaviðskiptastofnunina verði hér á landi til að tryggja megi að Ísland geti verið þátttakandi í starfi hennar frá fyrsta degi og tryggð sé hlutdeild Íslendinga í þeim ábata sem hið nýja viðskiptakerfi mun færa heimsbyggðinni.
    Virðulegi forseti. Að lokum er þess að geta að með stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar lýkur sögu GATT í núverandi mynd en um leið markar samningurinn upphaf nýs tímabils í breyttum viðskiptaheimi. Skapaður hefur verið nýr og traustari vettvangur til frekari sóknar í frjálsræðisátt fyrir hagkerfi heimsins í stöðugri baráttu fyrir bættum lífskjörum og velferð á kostnað sérhagsmuna og verndarstefnu. Nýjar og skýrari viðskiptareglur sem og skilvirkari reglur um lausn deilumála munu auka aga og festu í viðskiptum ríkja og bæta réttarstöðu þeirra. Alþjóðaviðskiptastofnunin hefur því grundvallarþýðingu fyrir smáþjóðir eins og Ísland, sem flestum öðrum fremur eiga allt sitt undir greiðum og öruggum milliríkjaviðskiptum. Við eigum mikið undir því að alþjóðareglur gildi í stað aflsmunar.
    Að lokinni þessari umræðu, virðulegi forseti, legg ég til að málinu verði vísað til síðari umræðu og hæstv. utanrmn.