Samningur um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunar

45. fundur
Þriðjudaginn 29. nóvember 1994, kl. 14:08:52 (2032)


[14:08]
     Páll Pétursson (um fundarstjórn) :
    Frú forseti. Ég beið eftir því að fá svar við þeirri kröfu sem hv. 6. þm. Norðurl. e. setti fram, þ.e. hvort ekki væri tiltækilegt að fresta umræðunni. Ég árétta hér með þá ósk. Ég tel að það sé algerlega útilokað að ræða málið eða a.m.k. ljúka 1. umr. að landbrh. fjarstöddum. Þessi gjörningur hefur mjög mikil og fyrirsjáanlega neikvæð áhrif á íslenskan landbúnað. Í ræðu hæstv. utanrrh. kom fram að aukin samkeppni, sem skapaðist við þetta, hlýtur náttúrlega að koma niður á lífskjörum bænda. Þar á ofan fylgir þessu skuldbundinn innflutningur landbúnaðarvara sem að sjálfsögðu tekur markað af íslenskum landbúnaði. Það lækkar að vísu vöruverð til neytenda en fjölgar hins vegar atvinnulausum þannig að það þarf að liggja fyrir hvernig þetta kemur út fyrir þjóðarbúið. Atvinnuleysisbætur og framfærsla sveitarfélaga auka kostnað samfélagsins. Atvinnuleysisbætur eru vel að merkja til fólks í þéttbýli, sem vinnur úr landbúnaðarvörum, og eykur þrýstinginn á aukinn innflutning fram yfir þann skuldbundna á hefðbundnum landbúnaðarvörum. Hlutur landbúnaðarins hefur verið fyrir borð borinn í samningunum. Ísland hefur ekki leitað eftir fyrirvörum eða úrbótum hvað varðar landbúnað. Ég reikna með að sjávarútvegur hafi verið sæmilega passaður án þess þó að hafa kynnt mér það sérstaklega en hagsmunum landbúnaðarins hefur verið fórnað. Frumvörp hafa verið boðuð og ýjað að úrbótum til varnar íslenskum landbúnaði. Ég vil fá að vita hvar þau eru, hvar það mál stendur og ég tel að þingið eigi kröfu á því. Landbúnaðurinn stendur algerlega berskjaldaður ef stjórnvöld vilja ekki verja hann. Það er hægt að bjarga þessu að mestu sé hér ríkisstjórn á hverjum tíma sem vill verja íslenskan landbúnað, annars ekki. Vilji ríkisstjórnin ekki sinna íslenskum landbúnaði þá stendur hann algerlega berskjaldaður og getur rústast á fáum árum og er hann þó illa kominn fyrir.
    Ég óska því eftir nærveru hæstv. landbrh. við umræðuna og úr því að hann getur ekki komið og hefur gleymt að biðja um fjarvist þá óska ég eftir því að umræðunni verði frestað. Ég er á mælendaskrá en ég treysti mér ekki til þess að flytja ræðu mína fyrr en landbrh. getur verið viðstaddur.