Samningur um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunar

45. fundur
Þriðjudaginn 29. nóvember 1994, kl. 14:12:32 (2033)


[14:12]
     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) (um fundarstjórn) :
    Virðulegi forseti. Að gefnu tilefni vil ég einfaldlega beina því til virðulegs forseta að ekki eru rök fyrir því að fresta umræðunni. Eins og fram hefur komið þá er þetta vissulega mikilvægt mál. Það er á forræði utanrrh. og er ekkert að vanbúnaði að ræða það við 1. umr. í öllum grundvallaratriðum. Ég leyfi mér að vísa til þess að á nýafstöðnu flokksþingi Framsfl. var lýst yfir stuðningi við þetta mikla mál af hálfu Framsfl. og því er ekkert að vanbúnaði að ljúka 1. umr. og að vísa málinu til nefndar. Að því er varðar beiðni hv. þm. um upplýsingar um starf nefndarinnar er hægt að gera þær eitthvað fyllri en fram kom í framsöguræðu utanrrh. Ég er tilbúinn til þess í umræðunum að leggja fram frekari upplýsingar og skýringar um það en staðreyndin er nú samt sem áður sú að því nefndarstarfi er ekki lokið og því er ekki kallað eftir þeim niðurstöðum þótt upplýsingar liggi fyrir um það að hverju er unnið. Ég er fullvissaður um það af hálfu verkstjórnaraðila sem er forsrn. að það verði mjög fljótlega.