Samningur um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunar

45. fundur
Þriðjudaginn 29. nóvember 1994, kl. 14:54:51 (2049)


[14:54]
     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég heyri á ræðu hv. þm. að hann hefur verið fjarverandi þegar ég svaraði hér áðan, ekki verið í þingsalnum og ekki heyrt mál mitt.
    Ég sagði áðan frá því að Norðmenn væru nýbúnir að ganga frá sínum málum og ég sagði jafnframt frá því að við Íslendingar værum fáliðaðir og okkur hefði þótt rétt og skynsamlegt að bíða Norðmannanna og sjá hver yrði niðurstaða þeirra. Ég skil satt að segja ekki ef hv. þm. vill halda því fram hér að með þeim hætti sé staðið óeðlilega að málum á Íslandi. Við höfum þvert á móti haft mjög náið samstarf við Norðmenn og aðrar Norðurlandaþjóðir bæði í sambandi við GATT-tilboðin frá öndverðu og líka í sambandi við samningana um hið Evrópska efnahagssvæði þannig að ég hygg að hv. þm. hafi verið þetta allt saman ljóst.
    Það liggur líka fyrir og ég skal endurtaka það hér að sérfræðinganefndin er enn að störfum. Á meðan hún hefur ekki skilað af sér, á meðan niðurstaða er ekki fengin þar er það auðvitað vísbending um að verið sé að athuga vissa þætti betur. En hitt er alger útúrsnúningur og einungis sagt út í loftið að halda því fram að af því að niðurstaða liggi ekki fyrir á einhverjum tilteknum degi, næstsíðasta degi nóvembermánaðar, sýni það að engin grunnvinna hafi verið unnin. Þetta eru auðvitað feiknarlega mikil orð og stór ef maður tæki mark á þeim og gefur í skyn að þeir embættismenn sem hafa unnið að þessu verki hafi svikist um og ekki unnið þá grunnvinnu sem þeim var ætlað að vinna.