Samningur um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunar

45. fundur
Þriðjudaginn 29. nóvember 1994, kl. 14:58:06 (2051)


[14:58]
     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég átta mig ekki alveg á því hvert er tilefni síðustu ræðu hv. þm. Ég hef þrásinnis sagt og hélt að hv. þm. skildi mælt mál og þegar skýrt er kveðið að hlutum. Embættismannanefndin hefur ekki skilað niðurstöðu. Þegar málið liggur þannig fyrir kemur þingmaðurinn upp hvað eftir annað, æ ofan í æ og heldur því fram að þeir sem þar sitja hafi svikist um, þeir hafi ekki unnið grunnvinnu sína og þar fram eftir götunum. Auðvitað er staðreyndin sú að það er verið að bera saman bækur sínar, það er verið að marka í heild sinni þá stefnu sem við munum taka þegar verið er að gera sér grein fyrir einstökum atriðum. Niðurstaðan mun liggja fyrir á næstu vikum eins og ég sagði áður. Auðvitað er öldungis ljóst og hefur verið lýst yfir áður, ekki einungis í umræðum nú af mér heldur í umræðum áður, að öll þessi atriði munu liggja ljóst fyrir og utanrmn. gera grein fyrir því áður en málið verður þaðan afgreitt. Það er sú niðurstaða sem hefur fengist í ríkisstjórninni og sú málsmeðferð sem fengist hefur.
    Ég hygg á hinn bóginn að það sé bæði gott og nauðsynlegt að þessi mál komist inn í umræðuna. Þau séu tekin hér fyrir á hinu háa Alþingi en að nota það sem tækifæri til að vera með einhverjar getsakir eða útúrsnúninga um efni málsins er auðvitað algjörlega út í hött.