Samningur um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunar

45. fundur
Þriðjudaginn 29. nóvember 1994, kl. 15:13:58 (2057)


[15:13]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Það er satt að segja dálítið umhugsunarvert að allur þessi mikli samningur eða öllu heldur allt þetta samningaverk sem hér er á ferðinni skuli vera rætt með þeim hætti sem hér gerist vegna þess að hér er lögð fram þáltill. um að þessi bók skuli í grófum dráttum fá lagagildi í landinu. Í sjálfu sér þekkir maður ýmislegt frá því að menn voru að fara í gegnum þennan EES-samning þar sem menn voru með upp í hálfan metra af þingskjölum undir í einu á bak við eina eða tvær línur í einhverjum þáltill. En í rauninni er slæmt hvernig að þessum hlutum er staðið og hefði verið mikið heppilegra ef t.d. landbúnaðarþátturinn, sem er greinilega það sem aðallega vekur hér umræðu, hefði verið ræddur sérstaklega þannig að tími hefði gefist til að fara dálítið rækilega yfir GATT- samninginn sem slíkan og samningsdrögin sem fyrir liggja um Alþjóðaviðskiptastofnunina. Ég held að það sé dálítið umhugsunarefni fyrir Alþingi að umræðan um Alþjóðaviðskiptastofnunina, sem er stórkostlega merkilegt mál og eitt allra merkilegasta mál þingsins, skuli ekki fá hér pláss af því að menn af eðlilegum ástæðum vilja tala um landbúnaðarmál. Ég er þó ekki að gagnrýna það heldur bara að kvarta almennt undan því hér að ekki skuli vera gefið færi á því fyrir þingmenn að taka á þessu máli með eðlilegum og aðgreindum hætti þannig að menn ræði annars vegar um samninginn um Alþjóðaviðskiptastofnunina sérstaklega og hins vegar ræði menn um landbúnaðinn þannig að ekki sé verið að tala um þessi mál hvert ofan í öðru eins og gert er. Þó að skylt sé skeggið hökunni, þá er það samt þannig að heppilegra væri ef umræðan gæti verið aðgreind.
    Þetta vil ég láta koma hér fram, hæstv. forseti, og biðja bæði ríkisstjórn og forsætisnefnd að huga að því hvort ekki er hægt að koma þessum málum öðruvísi fyrir í framtíðinni þegar svona mál eru tekin

hér til umræðu.
    Varðandi samningsdrögin um Alþjóðaviðskiptastofnunina sem hér er á ferðinni, þá er það alla vega mín skoðun að þetta sé eitt af merkilegustu málum þingsins að mörgu leyti. Það er alveg rétt sem hefur verið bent á hér í dag að það er beinlínis gaman að því að þessi samningur skuli koma til umræðu einmitt á þessum sólarhring, daginn eftir að Íslendingar losnuðu við óttann af hinni óttalegu einangrun sem var sagt að ella blasti við okkur ef Norðmenn gerðust aðilar að Evrópusambandinu. Er auðvitað ástæða til þess úr því að það hefur ekki verið gert að fagna því sérstaklega úr þessum ræðustól að Norðmenn skuli sem frjáls þjóð hafa tekið ákvörðun um að losa sig úr þessu kompaníi og þessum böndum sem menn voru tilbúnir til þess að setja á Norðmenn þar sem nú geta þrifist bæði rauðar og grænar hugsanir með blóma eins og fram kom í umræðuþætti í norska sjónvarpinu í gærkvöldi sem ég vona að sem flestir hér hafi séð.
    En það sem hér er á ferðinni er ósköp einfaldlega það að hér er verið að safna má segja í einn punkt þeirri hugsun sem hefur verið á bak við GATT-samninginn annars vegar og Alþjóðabankann og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn hins vegar. Það er verið að þróa þessi þætti saman í einn meginþráð, í einn meginfarveg og það er út af fyrir sig skynsamlegt, en menn hljóta þá að velta því fyrir sér hvort hætta sé á því að of mikil áhersla sé lögð á þennan eina farveg vegna þess að það hefur verið vandinn með Alþjóðabankann og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn að menn hafa freistast þar til þess að reyna að knýja ríki og lönd inn í tiltekið hugmyndafræðilegt mynstur burt séð frá öllum öðrum hlutum. Ég held að það beri að undirstrika það og ég geri það af minni hálfu að mönnum ber að varast það í samstarfi af þessu tagi að reyna að hneppa þjóðir í tilteknar hugmyndafræðilegar uppskriftir eins og menn hafa viljað gera á vegum Alþjóðabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.
    Hins vegar held ég að í samningnum sjálfum um Alþjóðaviðskiptastofnunina séu nokkur atriði sem sé rétt að inna eftir sérstaklega. Það kemur beinlínis fram að gert er ráð fyrir því að hún móti stefnu með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Alþjóðabankanum. Það segir í 5. tölul. 5. gr.:
    ,,Til að ná fram auknu samræmi í stefnumótun efnahagsmála á alþjóðavettvangi skal Alþjóðaviðskiptastofnunin eiga samstarf, eftir því sem við á, við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og Alþjóðabankann og þær stofnanir sem tengjast honum.``
    Nú skil ég út af fyrir sig vel hvaða forsendur eru fyrir þessu. Ég held hins vegar að hætta sé á því að menn geti gengið allt of langt í þeim efnum að hneppa allar þjóðir heimsins í sömu formúlurnar að því er varðar yfirstjórn efnahags- og viðskiptamála.
    Nú vitum við hins vegar að þær þjóðir sem hafa kannski náð einna lengst á seinni árum í efnahags- og viðskiptamálum hafa ekki fylgt forskriftum Alþjóðabankans eða Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Þar er ég sérstaklega að tala um Austur-Asíuþjóðirnar þar sem ekki er hægt að tala um eitt módel eða eina línu heldur liggur það alveg fyrir að þessar þjóðir hafa fylgt sínum eigin forsendum og hafa beitt mjög verulegum ríkisinngripum og félagslegum áherslum varðandi yfirstjórn efnahagsmála í ýmsum ríkjum og hafa náð þar sumar hverjar alveg stórkostlegum árangri. Ég tel ástæðu til að láta það koma fram að ég tel hættulegt ef menn gerast of ofstækisfullir í því að framkvæma tiltekna hugmyndafræðilega frjálshyggju eða markaðshyggjustefnu. Ég held að ríkin eigi að fá að þróa og taka ákvarðanir hvert á sínum forsendum hvert í sínu landi.
    Hitt er svo aftur annað mál að að því er varðar hin alþjóðlegu viðskipti eiga þessir hlutir að vera opnir og hljóta að verða opnir. Ef menn ætla að ná einhverjum árangri og yfirsýn yfir málin, þá verða þessir hlutir að vera miklu opnari en þeir hafa að mörgu leyti verið. Ég tel t.d. að Evrópusambandið sé hættulegt í þessu efni. Evrópusambandið hefur tilhneigingu til að draga úr frjálsri alþjóðaviðskiptaþróun og þess vegna held ég að nauðsynlegt sé fyrir smáþjóð eins og Íslendinga að leggja einmitt áherslu á þróun svona stofnunar eins og Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar og GATT-samningsins, miklu frekar en menn fari að gerast aðilar að einhverjum fjölþjóða blokkum, svæðisbundnum blokkum eins og Evrópusambandinu.
    Spurningin er þá sú, sem væri fróðlegt að bera fram í þessari umræðu og ég hefði viljað biðja hæstv. utanrrh. að vera ekki langt undan, hvert sé í rauninni það framkvæmdarvald sem tryggir það samkvæmt þessum samningum að bestukjarareglunni, jafnræðisreglunni, verði alltaf fylgt. Hvert er það framkvæmdarvald? Hvert er það tæki? Mér sýnist að það séu túlkanir og fortölur eins og gengur, en ég tel nauðsynlegt að draga þá umræðu fram vegna þess að eins og þetta er sett upp hér, þá held ég að það verði að draga í efa að þetta framkvæmdarvald dugi alltaf til þess að koma í veg fyrir það að blokkir myndist við að hindra það sem ég kalla frjálsa, alþjóðlega viðskiptaþróun. Menn sjá þetta mjög vel í 9. gr. á bls. 13 í samningnum sjálfum þar sem það þarf að setja sérákvæði um Evrópusambandið. Menn telja að staðan sé þannig að Evrópusambandið eins og það er geti hagað sér þannig að það þarf að setja sérstakt ákvæði um það, um vinnubrögð og um stöðu Evrópusambandsins gagnvart þessum alþjóðlega samningi.
    Að öðru leyti tek ég undir það, hæstv. forseti, að ég tel að hér sé afskaplega mikið mál á ferðinni um leið og ég harma að ekki skuli gefast lengri tími til umræðna um hinar almennu forsendur GATT-samningsins og samningsins um Alþjóðaviðskiptastofnunina.