Samningur um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunar

45. fundur
Þriðjudaginn 29. nóvember 1994, kl. 15:31:41 (2059)


[15:31]
     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég veit að hv. 3. þm. Reykv. vill gjarnan heyra mig segja það að ég telji að upphaf og endir alls sem er sé ríkið. Því hefur hann trúað mjög lengi og skrifað um það hundrað greinar í Morgunblaðið á ævi sinni þannig að ég skil vel að hann skuli einlægt leggja mér það í munn að ég vilji að ríkið ráði öllu en það er misskilningur.
    Það sem ég var að tala um áðan var ósköp einfaldlega það að menn hefðu ekki hikað við að beita aðferðum hver hjá sér eftir því sem aðstæðurnar hentuðu í hverju landi. Í úttekt sem gerð var á vegum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um þetta svæði sem heitir East-Asian Miracle er mjög nákvæmlega farið yfir þetta ríki fyrir ríki og þar kemur fram að menn hafa þorað að beita ríkinu líka og stundum. En auðvitað er það ekki algild regla, langt frá því vegna þess að í raun og veru ganga menn út frá því að það sé um að ræða markaðsbúskap, það sé um að ræða tiltekna stýringu á efnahagskerfinu miðað við þá forsendu að það sé markaðsbúskapur en það er líka lögð á það áhersla sem skiptir mjög miklu máli í þessu sambandi að það sé ótrúlega virt menntakerfi sem vinnur með atvinnulífinu, bæði að þróun og uppbyggingu. Þar er lögð áhersla á sparnað eins og hv. þm. benti hér á og þar er lögð áhersla á að ríkið sé ekki rekið með verulegum halla og ríkið standi ekki fyrir mjög mikilli skuldasöfnun og fyrr afli menn skatta eða tekna eða skeri niður en að skilja ríkið eftir með verulega skuldasöfnun þannig að menn standi ekki frammi fyrir því sem við gerum að vera með skuldir ríkisins sem nema núna um það bil eins og hálfs árs tekjum íslenska ríkisins svo hrikalegt sem það er. Ég held því að nauðsynlegt sé fyrir menn að kynna sér þessa hluti vel eins og ég heyri að hv. þm. hefur gert og átta sig á því hvort við getum ekki eitthvað af þessu lært og svar mitt við því er já. Við getum margt af þessu lært.