Samningur um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunar

45. fundur
Þriðjudaginn 29. nóvember 1994, kl. 15:33:53 (2060)


[15:33]
     Björn Bjarnason (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég er sammála hv. ræðumanni að við getum mikið af þessu lært og það er m.a. það sem ríki í heimshluta okkar eru að velta fyrir sér: Hvað er það helst sem stendur okkur fyrir þrifum til þess að hagvöxtur verði svipaður og er í þessum löndum? Þar staldra menn nú orðið ekki síst við það sem við getum kallað úrelta vinnulöggjöf í Evrópu og heimshluta okkar. Hún standi því fyrir þrifum að við getum lagað atvinnustarfsemi í okkar landi að breyttum aðstæðum eins og gert hefur verið í þessum löndum. Það er mjög mikilvægt að við gerum okkur grein fyrir þessu og veltum þessu fyrir okkur. Á vegum OECD og alþjóðastofnana hefur þetta verið sérstaklega rannsakað en þetta er líka með viðkvæmustu þáttunum bæði í þjóðfélagi okkar og einnig í þeim þjóðfélögum þar sem verkalýðshreyfingin og þetta stirðbusalega kerfi, sem komið hefur verið á laggirnar í kringum hana, og þetta svokallaða félagslega kerfi, sem við byggjum á, hefur náð að festa jafnsterkar rætur og við vitum. Það er nauðsynlegt að við ræðum þetta líka og veltum þessu fyrir okkur ef við ætlum að meta stöðu okkar gagnvart þessum þjóðum. Einnig tek ég undir það að aðlögun menntakerfisins að breyttum aðstæðum er ákaflega mikilvæg þegar fjallað er um þessi mál. En þriðji þátturinn sem við megum ekki gleyma og kom fram þegar hv. utanrmn. náði í þá skýrslu, sem hv. þm. minntist á, í Washington í vor um þetta efnahagskraftaverk í Asíu en við fengum þessar bækur þegar við fórum þangað. Þar lögðu þeir ekki síður áherslu á mikilvægi útflutningsins. Það var sérstaklega til þess að gleðja hv. 8. þm. Reykn., formann Alþb., að útflutningsleiðin var líka talinn mikilvægur þáttur í því að þetta efnahagsundur hafði orðið og þess vegna fagna ég því líka sérstaklega að allir hv. þm. Alþb. sem hér hafa tekið til máls hafa að sjálfsögðu ríkan skilning á nauðsyn þess að GATT-samkomulagið og Alþjóðaviðskiptastofnunin komist á því að hún auðveldar náttúrlega framkvæmdina á útflutningsleiðum.