Samningur um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunar

45. fundur
Þriðjudaginn 29. nóvember 1994, kl. 15:47:27 (2064)


[15:47]
     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Eins og ég sagði áður þá er verið að vinna að þessum málum í embættismannanefndinni og ég hef margtekið það fram. Fyrirspurn hv. þm. var að sumu leyti öðruvísi orðuð nú en áður. Það sem liggur fyrir um lágmarksaðganginn er að hann verður 3% á fyrsta ári eins og hv. þm. er kunnugt. Í sambandi við unnið kjöt er talað um 60--70 tonn. Það má að sjálfsögðu ekki flytja inn hrá egg. Í sambandi við unnin egg er talað um 35 tonn. Í sambandi við smjör 32 tonn og ost 68 tonn.
    Tollur á þennan innflutning er 32% af fullum tolli á fyrsta ári.