Samningur um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunar

45. fundur
Þriðjudaginn 29. nóvember 1994, kl. 15:48:11 (2065)


[15:48]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það getur ekki annað en þykknað illa í manni við svona svar. Hæstv. ráðherra kom ekki með neitt nema hluti sem lágu fyrir þegar íslenska tilboðið var lagt fram á síðasta ári. Einfaldur framreikningur frá því hvað þessi 3% væru mikið magn í tonnum. --- Hæstv. ráðherra, ég spurði ekki eftir því. Ég spurði hver væri pólitísk stefnumótun ríkisstjórnarinnar um hvernig ætti að framkvæma þennan innflutning en það skiptir afar miklu máli. Á það að gerast samkvæmt uppboði eins og hæstv. ráðherra nefndi einu sinni? Á það að gerast þannig að einstök stór smásölufyrirtæki fá þetta í sínar hendur? Á það að gerast þannig að Ríkisspítalarnir og hæli fái þetta magn, eins og maður hefur heyrt úr herbúðum ríkisstjórnarinnar? Eða á það að gerast þannig að afurðasölufyrirtæki sem eru að dreifa hér innan lands, til að mynda, fái rétt á þessum innflutningi? Það eru þessi atriði sem ég er að spyrja eftir. Og koma síðan upp með framreikning á því hvað 3% þýði, það þurfti ekki annað meira til en einfalda litla vasatölvu til að reikna það út. Það þurfti ekkert fimm ráðuneyta nefnd í átta mánaða starf til að komast að þeirri niðurstöðu. Þannig að enn á ný er það hér staðfest að það liggur ekkert fyrir hvað hina pólitísku stefnumörkun varðar hvernig á að framkvæma GATT-samninginn.