Samningur um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunar

45. fundur
Þriðjudaginn 29. nóvember 1994, kl. 15:49:47 (2066)


[15:49]
     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég skil ekki af hverju hv. þm. bregst svona reiður við þegar honum er svarað efnislega um það sem hann spurði.
    Um hitt sem hann spurði, hvernig yrði staðið að innflutningnum sem er annars eðlis, þá liggur ekki fyrir niðurstaða um það í embættismannanefndinni og við höfum heldur ekki tekið afstöðu til þess í ríkisstjórninni. Hitt væri á hinn bóginn fróðlegt að fá að vita hvort hv. þm. sem spyr svo ákaft hvort hann hafi sjálfur gert upp við sig hvernig hann vilji að þessum málum standa.
    Ég ítreka það sem ég sagði áðan, embættismannanefndin er að vinna að sínum tillögum, það er eðlilegt að hún skili áliti. Það veltur ekki á þessu til eða frá hversu langan tíma tekur að vinna að þessum málum.
    Eins og hv. þm. heyra þá er þessi hv. þm. að reyna að vekja tortryggni eða búa til ágreining af þessu tilefni. Auðvitað vitum við og það hefur alltaf legið ljóst fyrir að það er vandamál og það er flókið mál hvernig eigi að standa að innflutningi á því sem við köllum vörur samkvæmt lágmarksaðgangi. Mér er ekki kunnugt um að neinn stjórnmálamaður eða neinn stjórnmálaflokkur hafi kveðið upp úr um það

hvaða skoðun hann hafi einmitt á þessu atriði. En á hinn bóginn hafa ýmsir verið mjög spurulir um það.
    Embættismannanefndin mun skila rökstuddum tillögum um þessi efni. Eftir að sú niðurstaða liggur fyrir þá verður hún tekin fyrir í ríkisstjórninni og ég sé ekki neina ástæðu til þess að fjölyrða um þá hluti fyrr, nema ég vil taka fram að auðvitað verður frá þessum málum gengið með þeim hætti að ekki verður bundið við ákveðið byggðarlag á landinu eða að menn þurfi að fara langan veg til að njóta hans, heldur muni menn geta notið hans hvarvetna, hvar sem þeir búa.