Samningur um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunar

45. fundur
Þriðjudaginn 29. nóvember 1994, kl. 15:53:30 (2068)


[15:53]
     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Hér hafa orðið einhver mistök hjá formönnum þingflokka stjórnarandstöðunnar að biðja ekki um lengdan ræðutíma í máli þessa eðlis. Forseta er heimilt að láta ákvæði 55. gr. þingskapa gilda við fyrri umræðu um þáltill., er fjalla um stjórnskipun, utanríkis- eða varnarmál, staðfestingu framkvæmdaáætlana, alþjóðasáttmála eða milliríkjasamninga, liggi fyrir ósk um það. Óskin hefur ekki verið lögð fram á réttum tíma og því erum við hér í allt of mikilli tímaþröng að ræða þetta stóra mál.
    Ég vil byrja á því að spyrja hæstv. utanrrh., fá nánari útlistun hans eða áréttingu á klausu sem stendur á bls. 4, tilvitnun, með leyfi forseta:
    ,,Hornsteinn GATT, bestukjarareglan, tryggir að einstök aðildarríki geta almennt ekki beitt mismunandi reglum gagnvart öðrum aðildarríkjum GATT. Þetta þýðir t.d. að ef Nýsjálendingar lækkuðu tolla á þorskflökum frá Kanada gegn því að Kanada lækkaði tolla á lambakjöti frá hinu fyrrnefnda, gildir það fyrir öll aðildarríki GATT, án þess þó að þau hafi tekið þátt í slíkum samningaviðræðum. Í krafti þessarar reglu mun Ísland njóta góðs af þeim tollalækkunum sem önnur ríki hafa náð fram í Úrúgvæviðræðunum.``
    Ég vil óska eftir að hæstv. utanrrh. staðfesti þetta eða útlisti nánar. Eigum við í krafti þessarar reglu kost á því t.d. að flytja dilkakjöt á þeim tollum sem Nýsjálendingar hafa náð fram sérstaklega fyrir sig og keypt einhverju verði?
    Það er hvimleitt að hlusta á hæstv. landbrh. koma ruglandi í ræðustólinn hvað eftir annað og svarandi ekki spurningum, ekki einu sinni reynandi að snúa út úr.
    Þau svör sem hann hefur gefið við spurningum í dag hafa verið gjörsamlega ófullnægjandi. Ég beini því spurningu minni til aðstoðarmanns hæstv. landbrh. sem hefur verið hér í gáttum um stund og bið hæstv. landbrh., þar sem ég veit að aðstoðarmaðurinn hefur ekki aðstöðu til að koma beint í ræðustól, ég bið hæstv. landbrh. að koma með skrifaða ræðu eða minnispunkta frá aðstoðarmanni sínum um það efni sem ég ætla að spyrja um.
    Ég ætla að spyrja: Geta Íslendingar tekið upp útflutningsbætur á landbúnaðarafurðir sem ekki voru útflutningsbættar viðmiðunarárin? Geta Íslendingar tekið upp útflutningsbætur á vöruflokka eða afurðir sem ekki voru útflutningsbættar á viðmiðunarárunum? Ég tek sem dæmi t.d. refaskinn. Ef okkur dytti í hug að fara að verðbæta eða taka upp útflutningsbætur á refaskinn. Höfum við tækifæri til þess?
    Ég skil málið þannig að við höfum heimild til þess að taka upp útflutningsbætur aftur á t.d. dilkakjöt. Það voru talsverðar útflutningsbætur á dilkakjöti á viðmiðunarárunum, guði sé lof. Ég tel að við höfum tækifæri til að gera það, þ.e. einungis að minnka þær eða skera nær niður um 36%.
    Ef þetta er ekki réttur skilningur þá óska ég eftir að ég verði leiðréttur.
    Ég tel að það að taka upp einhverjar útflutningsbætur í einhverju formi, hugsanlega sem framlag til markaðsmála eða eitthvað þess háttar, hreinlegast væri að hafa það útflutningsbætur, sé það eina sem geti

bjargað sauðfjárræktinni. Það er búið að þrengja það að henni með framleiðslutakmörkunum að búin eru ekki lífvænleg. 400 ærgilda bú í upphafi búvörusamnings er búið að skera niður í 260 ærgilda bú og það eru ekki nema örfá sauðfjárbú á landinu sem eru yfir 300 ærgildi. Á þessum búum geta fjölskyldur ekki lifað. Þær hafa ekki að öðru að hverfa, þær njóta ekki réttar til atvinnuleysisbóta nema með því að gefa upp alla von. En þetta fólk kann að framleiða dilkakjöt. Það hefur fjárfestingarnar, fjárhúsin standa auð, túnin eru fyrir hendi og þetta fólk kann að framleiða. Með aukinni framleiðslu þá væri hægt að framleiða með ódýrari hætti þar sem landkostir eru fyrir hendi. Ég er ekki að ætlast til þess að þar sem hætta getur verið á ofbeit sé farið að stækka búin. Það eru breyttir tímar frá því að útflutningsbætur voru afnumdar. Umsýsluútflutningurinn hefur sýnt að það er hægt að fá talsvert verð fyrir dilkakjöt erlendis. Það hefur verið unnið stórmerkilegt starf við að afla markaðar fyrir vistvænt kjöt og það getum við framleitt ef við viljum.
    Ég tel að útflutningsbótum megi ekki koma fyrir með sama hætti og gert var áður þar sem ákveðin krónutala var á hvert úflutt kíló heldur eigi að binda það við að það sé prósenta af því skilaverði sem útflytjandinn getur látið í té eða komið til baka með, þ.e. þá virkar það sem svipa á útflytjandann að fá sem hæst verð fyrir afurðina.
    Í öðru lagi hefur það komið fram í þessari umræðu að yfirlýsingin frá hæstv. forsrh. 10. jan. 1992 var marklaust plagg, ætluð einungis til þess að slá ryki í augu Alþingis og þeirra manna sem höfðu látið sig þetta mál varða. Ég vil, með leyfi forseta, lesa svar forsrh. Umræðan gekk þannig fyrir sig að ég óskaði eftir yfirlýsingu og forsrh. fór með hana. Síðan áréttaði ég það eða krafðist skýrari svara um hvort hér væri um að ræða formlega fyrirvara og þá svaraði hæstv. forsrh. svo, með leyfi forseta:
    ,,Virðulegi forseti. Þessi samþykkt ríkisstjórnarinnar er svar, athugasemd, sem formlega verður lögð fram á mánudaginn kemur vegna þeirrar tillögu sem herra Dunkel hefur lagð fram, sem andsvar og fyrirvarar af Íslands hálfu en jafnframt verður þetta plagg notað . . . `` ( Gripið fram í: Sem fyrirvari?) já, fyrirvari af Íslands hálfu vegna þess tilboðs sem herra Dunkel lagði fram og þjóðirnar hafa nú til meðferðar. ,,En jafnframt verður þetta plagg notað í dag af hálfu Íslendinga í viðræðum norrænu þjóðanna í Ósló sem eru að móta sína sameiginlegu afstöðu eða ná fram sem víðtækastri samstöðu varðandi það hvernig þær vilji sameiginlega svara þessu tilboði. En óháð því hvaða niðurstaða verður þar, þá stendur þetta plagg sem svar íslensku ríkisstjórnarinnar.`` ( Gripið fram í: Sem fyrirvari?) Ég held að ég sé búinn að svara þessu alloft, ágæti þingmaður. Ég vona að aðrir heyri betur hér í salnum heldur en þessi virðulegi ágæti þingmaður.
    Þetta var sem sagt bara sett fram, þessir svardagar hæstv. forsrh., til þess að slá ryki í augun á okkur, kæfa þær athugasemdir sem við höfðum fram að færa. Við hættum að tala um málið í góðri trú og þetta eru efndirnar.
    Frú forseti. Ég er búinn að tala mig dauðan. Ég hef ekki tækifæri til þess að taka aftur þátt í þessari umræðu við fyrri umræðu. En ég tel, frú forseti, að þetta mál eigi ekki og megi ekki afgreiða úr utanrmn. fyrr en liggur fyrir hvernig girðingarnar verða settar upp. Og ég krefst þess af hæstv. ráðherrum sem eiga menn í embættismannanefndinni að þeir láti þá klára sitt verk. Það er ekki rétt sem hæstv. landbrh. sagði að þeir hafi nógan tíma og geti dúllað við þetta fram á vor.