Samningur um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunar

45. fundur
Þriðjudaginn 29. nóvember 1994, kl. 16:29:20 (2077)


[16:29]
     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að ræða frekar um tilhleypingar. En hv. þm. spurði hvort rétt væri að undirbúningsvinna nefndarinnar væri raunverulega á byrjunarstigi. Það er ofmælt. Nefndin hefur komið saman til allmargra funda, hún hefur skilgreint þá lagabálka sem þarf að breyta og hún hefur unnið að ýmsum breytingartillögum. Það er afar flókið verk að taka alla tollskrána til slíkrar endurskoðunar þannig að hún er fyrir alllöngu byrjuð það starf. Mér er kunnugt um að það hefur staðið yfir a.m.k. vikum saman. Ég hef ekki nákvæmar upplýsingar um hvenær þess er að vænta að því ljúki en tímamörkin eru þau sem fram hafa komið. Ég endurtek að það er rétt skilið að pólitísk ákvörðun um hvar menn stilla verndartolla eða tollígildunina getur ekki legið fyrir nema á grundvelli nákvæmra talna um hámarksheimildir eftir tollflokkum.