Samningur um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunar

45. fundur
Þriðjudaginn 29. nóvember 1994, kl. 16:31:39 (2079)


[16:31]
     Páll Pétursson (andsvar) :
    Frú forseti. Ég árétta það enn og aftur að embættismannanefndin og ríkisstjórnin verða að hafa lokið athugun þessa máls og komið með þá pólitísku línu sem ríkisstjórnin ætlar að fylgja áður en þessi þáltill. verður afgreidd úr utanrmn.
    Hæstv. utanrrh. gerði athugasemdir við það sem hann kallaði þráhyggjuverndarstefnu í landbúnaði og ég tók það mál til mín eða á sjálfsagt minn hlut í því. Ég er, eins og margoft hefur komið fram, samþykkur meginmarkmiðum með World Trade Organisation. En um er að tefla hvorki meira né minna en framtíð 4.000 bændafjölskyldna í landinu og með margfeldisáhrifum kannski einar 16 þúsund fjölskyldur. Það að vilja vernda hagsmuni þessa fólks, láta það ekki troðast algerlega undir í brjálaðri markaðshyggju ríkisstjórnarinnar, það kallar hæstv. utanrrh. þráhyggju. Þá er í mínum huga þráhyggja lofsverð. Meira en helmingur fólks í mínu kjördæmi byggir afkomu sína með einum eða öðrum hætti á framhaldi landbúnaðar.