Samningur um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunar

45. fundur
Þriðjudaginn 29. nóvember 1994, kl. 16:37:22 (2083)


[16:37]
     Ingi Björn Albertsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Hæstv. utanrrh. ræddi hér um innflutningskvótann og útdeilingu á honum og nefndi þar þrjár leiðir, sem ég verð nú að segja að svona við fyrstu hlustun þá leist mér ekki á neina þeirra, en hef í sjálfu sér enga betri tillögu að þessu sinni. En hann nefndi sem skásta kostinn að sínu mati . . .   ( Gripið fram í: Bingólottó.) Já, bingólottó er kallað hér fram í, kost nr. 2 sem var að varpa hlutkesti og nefndi þá í sömu andránni þá sem hafa innflutningsleyfi. Það varð til þess að ég fór að velta því fyrir mér hvað hæstv. ráðherra ætti við með slíku og bið hann að svara þeirri einföldu spurningu fyrir mig hvort hann á þarna við alla þá sem almennt stunda innflutning í dag og hafa til þess verslunarleyfi eða hvort það er meiningin að útdeila leyfum fyrir þennan innflutning með einhverjum sérstökum öðrum hætti.