Samningur um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunar

45. fundur
Þriðjudaginn 29. nóvember 1994, kl. 16:40:08 (2086)




[16:40]
     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Öll skömmtunarkerfi eru af hinu vonda. Framkvæmd á skömmtunarkerfum verður yfirleitt með þeim hætti að leiðir til mismununar. Útboð eða uppboð hefur þann ókost að það mun hækka verðið til neytenda. Sú leið sem hér er valin er einfaldlega sú að auglýsa án mismununar, öllum frjálst að sækja um eða eftir atvikum ef um er að ræða varning sem kallar á einhverja fagþekkingu eða annað slíkt, tiltekinn hópur fær að sækja um, þá er minnstur skaði að því og minnst mismunun að láta hlutkesti ráða valinu úr þeim hópi. Miklu er það geðþekkilegri aðferð en t.d. ef ráðherra eða einhver skrifstofa, t.d. innan landbúnaðarkerfisins, ætti að taka um þetta geðþóttaákvörðun og úthluta einhverjum völdum gæðingum.