Samningur um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunar

45. fundur
Þriðjudaginn 29. nóvember 1994, kl. 16:46:44 (2089)


[16:46]
     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég tel út af fyrir sig gott að fá skýr svör og ég tel að þarna hafi komið fram skýrt svar hjá hæstv. ráðherra að hann telji að það sé ekki möguleiki að setja á útflutningsbætur vegna útflutnings á dilkakjöti. Það er verið að spyrja um þessa hluti úti um allt land og það er full ástæða til þess að menn hafi um það skýr svör og ef landbrh. telur að það sé ekki hægt er eins gott að menn viti það. Ég er honum innilega sammála um að þessi 3% markaðsaðgangur er mjög vandræðalegt fyrirbrigði og ég held að það þurfi að leita einhverra annarra leiða en að setja á einhvers konar lottó um það hverjir eigi að fá að flytja þetta inn. Ég ítreka það að mér finnst að það eigi að skoða möguleika á því að taka þetta einhverjum sérstökum tökum en ekki að láta innflutningsverslunina fara að keppa um þetta og síðan verður það hipsum happs hvort neytendur fái að njóta lækkaðs vöruverðs.