Samningur um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunar

45. fundur
Þriðjudaginn 29. nóvember 1994, kl. 16:48:59 (2092)


[16:48]
     Ingi Björn Albertsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég er ekki sammála hv. þm. Jóhanni Ársælssyni í því að sú leið sem hæstv. ráðherra benti á áðan af þeim þremur sem hann nefndi sé ekki best. Ég tel að hún sé skást af þeim leiðum sem hann nefndi þar en hafði þó þann fyrirvara á að ég gæti ekki bent á neina betri í augnablikinu en vonandi er hún til. Það sem dró mig aðallega upp í ræðupúltið var það sem hv. þm. sagði um hina frjálsu álagningu. Ég gat ekki skilið hann betur en svo að hann væri að mælast til þess að hér væru aftur tekin upp þau verðlagshöft sem ríktu á árum áður og menn vantreysti íslenskri verslun svo gjörsamlega að hún velti aldrei hagstæðum innkaupum út í vöruverðið. Ég held að ef menn labbi hér um bæinn, fari niður Laugaveginn eða inn í Kringlu, þá munu þeir sjá það að einmitt þær verslanirnar sem gera hagstæð innkaup láta viðskiptavinina njóta þeirra. Þannig að menn mega ekki vera svo fullir vantrausts á íslenska innflytjendur að þeir þori ekki að hafa frjálsa álagningu og hvetji til verðlagshafta á ný.