Samningur um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunar

45. fundur
Þriðjudaginn 29. nóvember 1994, kl. 16:53:17 (2095)


[16:53]
     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég talaði hér alls ekki um það að menn væru að níðast á íslenskum neytendum en það er eitt orð sem ævinlega er haft uppi þegar talað er um verslun og það er samkeppni. Á hverju byggist þessi samkeppni? Byggist hún ekki á því að koma með betra verð en samkeppnisaðilinn? Dugar það ekki yfirleitt að koma með betra verð? Það er nákvæmlega það sem ég er að segja og ég held að það sé alger óþarfi að vera að endurtaka það mjög oft að þegar boðið er upp á vöru sem kostar ekki nema hluta af innflutningsverði sambærilegrar vöru þá lenda menn einfaldlega í þeim vanda að það hlýtur að myndast þarna mikill mismunur á því hvað er hægt að selja vöruna undir venjulegum samkeppnisreglum og því sem hægt er að selja hana vegna kostnaðar við innflutninginn. Það virðist myndast mikill mismunur vegna þessara ákvæða sem þarna er verið að vinna út frá. Ég vil bara ræða um það eins og það liggur fyrir og ég tel enga ástæðu til þess að taka það illa upp og það er ekki í neinum ásökunartón eins og mér finnst hv. þm. vera að leggja mér í munn sem ég er að tala um þetta vandamál. Ég tel að þetta sé ákveðið viðskiptalegt vandamál og að það muni verða þannig í framkvæmdinni ef við pössum okkur ekki á því að neytendur muni þá ekki fá nema hluta af þeim hagnaði sem ætti annars að verða af því að flytja inn þessar vörur með þessu lága verði.