Ábyrgð á norrænum fjárfestingarlánum til verkefna utan Norðurlanda

45. fundur
Þriðjudaginn 29. nóvember 1994, kl. 17:03:36 (2098)


[17:05]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um ábyrgð á norrænum fjárfestingarlánum til verkefna utan Norðurlanda. Þetta er 237. mál þingsins og er að finna á þskj. 278. Með þessu frv. er óskað eftir að ríkisstjórninni fyrir hönd ríkissjóðs verði heimilt að ábyrgjast allt að 16,1 millj. ECU sem er um 1,3 milljarðar íslenskra króna vegna fjárfestingarlána Norræna fjárfestingarbankans til norrænna verkefna utan Norðurlanda.
    Frá árinu 1982 hefur Norræni fjárfestingarbankinn veitt fjárfestingarlán og fjárfestingarábyrgðir norrænna verkefna utan Norðurlandanna, einkum til þróunarríkjanna og Austur-Evrópuríkja. Norðurlöndin ábyrgjast 90% af lánunum en bankinn 10%. Í kjölfar vaxandi eftirspurnar eftir þessum lánum, sérstaklega frá löndum Austur-Evrópu, er þörf á meira fjármagni til þessa málaflokks. Þess vegna samþykkti norræna ráðherranefndin sl. vor að hækka hámarkslánsheimildir bankans úr 1,2 milljörðum ECU í 2 milljarða ECU eða 165 milljarða íslenskra króna. Við þetta eykst byrgð Íslands úr 9,6 millj. ECU í 16,1 millj. ECU. Enda þótt þessi lán hafi fari til norrænna verkefna í ríkjum þar sem lánsáhætta er meiri en gengur og gerist hafa til þessa engin afföll orðið. Það stafar af því að Norræni fjárfestingarbankinn, NIB, gerir afar strangar kröfur, bæði til lántakenda og um arðsemi verkefna. Einnig hefur bankinn í samræmi við reglur lagt sérstaka fjárhæð í afskriftasjóð til að mæta hugsanlegum útlánatöpum. Áfram munu verða gerðar sömu kröfur til lántakenda og áhættan verður því óbreytt.
    Ég vil, virðulegi forseti, óska eftir því að þetta frv. fái venjulega meðferð á hinu háa Alþingi. Að lokinni 1. umr. verði málinu vísað til 2. umr. og til efh.- og viðskn. sem afgreiðir málið með venjulegum hætti.