Vöruverð lífsnauðsynja og verðmunur á milli þéttbýlis og dreifbýlis

46. fundur
Miðvikudaginn 30. nóvember 1994, kl. 12:15:31 (2103)


[12:15]
     Jón Kristjánsson :
    Herra forseti. Ég þakka flm. þessarar tillögu fyrir flutning hennar því hér er um þarfasta mál að ræða og ástæða til þess að vinna í því máli sem tillagan fjallar um, mismun á vöruverði milli dreifbýlis og þéttbýlis.
    Það er nú svo hér í Alþingi að ráðherrar þessarar hæstv. ríkisstjórnar láta aldrei svo lítið að vera við þegar þingmannamál eru til umræðu og er það hinn versti ósiður sem ég vil gagnrýna harðlega. Það hefði verið ástæða til þess að tala við hæstv. viðskrh. í þessari umræðu því það vill svo til að það er nefnd starfandi einmitt í þessu máli á vegum viðskrn. og væri fróðlegt að vita hvort sú nefnd hefði gert eitthvað í þessu máli síðustu fjögur árin. Ég veit ekki til að hún hafi gert nokkurn skapaðan hlut, en ég hef heyrt að hún hafi haldið einn fund á síðasta ári norður á Hornströndum, nánar tiltekið í Hornvík, svo ég hefði viljað spyrja hæstv. viðskrh. hvort þetta sé rétt.
    ( Forseti (PJ) : Forseti vill taka fram að hæstv. viðskrh. hefur boðað veikindaforföll.)
    Já, það gefst kannski tækifæri til þess síðar að ræða þessi mál við hann. En sannleikurinn er sá að hv. 5. þm. Austurl. þykir rétt að reyna að herða á þessu máli og vil ég styðja hann í því og kem til að lýsa stuðningi við þessa tillögu og mér finnst ekki af veita að ýta á eftir ráðherrum Alþfl. í þessu máli sem hafa haft með þau að gera síðustu fjögur árin. Sannleikurinn er sá að auðvitað er mikill munur á vöruverði milli dreifbýlis og þéttbýlis og þar eru ýmsar ástæður fyrir hendi, m.a. þær sem hv. flm. rakti og það eru einnig fleiri ástæður. Það er staðreynd að t.d. bankar eru farnir að mismuna verslunum í þjónustugjöldum eftir stærð þeirra. Þóknanir fyrir Visaúttektir eru hærri hjá minni verslunum heldur en þeim stærri. ( Gripið fram í: Um allt land.) Já, um allt land. ( Gripið fram í: Líka í Reykjavík.) Já, líka í Reykjavík. ( Gripið fram í: Þar ríkir jöfnuður.) Já. En hins vegar, hv. 5. þm. Reykv., er þessi verðmunur milli dreifbýlis og þéttbýlis miðaður við stærstu verslanirnar í Reykjavík og þess vegna vegur þetta í þessum mun og miklu fleira. Það er auðvitað staðreynd að innan höfuðborgarsvæðisins er einnig mikill mismunur á vöruverði eftir verslunum. Hv. þm. þekkja allir umræðuna um það þegar stórmarkaðir hér í bæ eru farnir að selja vörur undir heildsöluverði og það er mismunað stórlega verslunum í því efni.
    En ég lýsi stuðningi við þessa tillögu en veit það jafnframt að verslanir úti á landi vinna mjög mikið starf í því um þessar mundir að reyna að lækka sitt vöruverð, skipuleggja sína aðflutninga og það hefur orðið gífurlega mikil breyting í því efni, að heildsölustigið er að hverfa meira, a.m.k. út úr matvöruverslununum. Þannig að auðvitað munar mest um það sem verslunin sjálf vinnur á þessu sviði þó vissulega verði hið opinbera að koma þar til líka, a.m.k. að hið opinbera skattleggi ekki aðstöðumuninn í landinu eins og nú er, því miður.