Vöruverð lífsnauðsynja og verðmunur á milli þéttbýlis og dreifbýlis

46. fundur
Miðvikudaginn 30. nóvember 1994, kl. 12:20:48 (2104)


[12:20]
     Björk Jóhannsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég vil lýsa ánægju minni yfir því að þáltill. um verðmun á lífsnauðsynjum milli þéttbýlis og dreifbýlis skuli hér fram komin. Við sem veljum það að búa á landsbyggðinni og þá sérstaklega þeir sem búa langt frá Reykjavík finnst það sorglegra en tárum taki hve verðmunurinn er mikill. Við höfum öll heyrt að verð fari almennt lækkandi í landinu og er það eflaust rétt, en eftir sem áður helst þetta misvægi milli kjara fólks á landsbyggðinni og höfuðborgarsvæðisins í formi verðmismunar á lífsnauðsynjum. Ástæður þessa eru m.a. eins og segir í grg. með tillögunni, með leyfi forseta:
    ,,Fámenni að baki hverri verslun, hár fastur rekstrarkostnaður, kröfur um fjölbreytt vöruúrval og víðtæka þjónustu sem erfitt er að standa undir.``
    Heyrst hafa dæmi um að heildsalar semji um magninnkaup til stórmarkaða á lægra verði en sem nemur framleiðslukostnaði. Því sem heildsalinn tapar á slíkum viðskiptum nær hann svo upp með hærri álagningu til smærri verslana, þar á meðal landsbyggðarverslana. Þetta er erfitt að sætta sig við en því miður þekki ég raunveruleg dæmi um slíkt. Þá má nefna það hér að víða á landsbyggðinni hafa menn ekki sömu sögu að segja af stöðugleika í vöruverði. Þannig virðist verðbólgan ekki alveg hafa gleymt okkur úti á landi.
    Allt þetta gerir það að verkum að fólk er í æ ríkara mæli farið að versla í Reykjavík vegna þess að það þarf hvort eð er að sækja þangað svo margvíslega opinbera þjónustu sem veitist ekki alls staðar í hinum dreifðu byggðum landsins. Landsbyggðarverslunin getur ekki undir nokkrum kringumstæðum staðist þessa verslunarhætti vegna þess að það sitja ekki allir við sama borð samkeppnislega séð.
    Virðulegi forseti. Ég fagna því mjög að tillaga þessi skuli hér fram komin á hinu háa Alþingi vegna þess að ég el þá von í brjósti að fólk þurfi ekki að búa við lakari kjör bara af því að það vildi búa utan Stór-Reykjavíkursvæðisins.