Vöruverð lífsnauðsynja og verðmunur á milli þéttbýlis og dreifbýlis

46. fundur
Miðvikudaginn 30. nóvember 1994, kl. 12:30:39 (2106)


[12:30]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Þeir sem hafa verið hér um nokkurt skeið eins og sá sem hér stendur kannast við það að þegar nær dregur kosningum fjölgar tillögum af ákveðnu tagi í þessari stofnun þar sem menn vilja að tekið sé á málum eins og t.d. vöruverði í dreifbýli. Satt að segja er það mjög skiljanlegt vegna þess að vöruverð er svívirðilega hátt í dreifbýli og eðlilegt að þingmenn dreifbýlisins skuli vilja fjalla um þau mál hér. En vandinn hefur hins vegar verið sá að um þau mál hefur mikið verið talað en í þeim málum hefur ekkert verið gert.
    Það hafa verið skipaðar margar nefndir til þess að fjalla um þetta, t.d. um stöðu dreifbýlisverslunarinnar. Fyrrv. viðskrh., sem er núna í Norræna fjárfestingarbankanum, skipaði nefnd til að fjalla um stöðu dreifbýlisverslunarinnar. Hún skilaði ítarlegri skýrslu og síðan hefur ekkert til þeirrar skýrslu spurst. Núv. viðskrh. sem tók við af honum skipaði líka nefnd til að kanna stöðu dreifbýlisverslunarinnar og ég hef sannfrétt að sú nefnd hafi í undirbúningi skýrslu um málið sem kemur vonandi hið fyrsta. Ég hef frétt hins vegar að það sé lítið um fundi á vegum þeirrar nefndar. Þeim mun meira vinni menn á milli funda og síðasti fundur nefndarinnar hafi verið haldinn í Fljótavík norður á Hornströndum þannig að þar hafi menn komið saman til að fjalla um vanda dreifbýlisverslunarinnar, enda er hann óvíða ljósari en einmitt á Hornströndum vegna þess að það er alveg augljóst hvert stefnir með dreifbýlið ef svo fer fram sem horfir að það verði einn samfelldur þjóðgarður verslanalaus nema það verði þá ein og ein pulsusjoppa fyrir túrista til þess að kíkja við í. Síðan hefur Alþingi rausnast til þess að leggja eina millj. og jafnvel tvær til að rannsaka dreifbýlisverslunina ár eftir ár og hefur verið alveg gríðarlega mikil þensla í kringum það mál hér stundum í ræðustól við afgreiðslu fjárlaga. ( GunnS: Þar sem menn keyptu nestið.) Það er ekki ljóst, hv. þm., hvar menn keyptu nestið, en það gæti hins vegar verið í verslun þar sem er samkeppni um verðið en það getur auðvitað líka hafa verið í verslun þar sem er ákveðið verð, ríkisverð, á tilteknum nauðsynjum manna, t.d. verslun sem ríkið rekur og skilar milljörðum í ríkissjóð og heitir Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins og þar er nú aldeilis samræmt verð.
    En rannsóknir á dreifbýlisversluninni hafa sem sagt farið fram með þeim hætti að það hefur verið settur peningur í þetta núna ár eftir ár og við höfum tekið eftir því sem erum að endurskoða ríkisreikninginn á hverju ári, ég og sá maður sem situr hérna að baki mér, hæstv. forseti, að þessir peningar eru aldrei notaðir. Menn setja tvær millj. eitt árið eina og hálfa eitt árið og 800 þús. á næsta ári í það að rannsaka stuðningsaðgerðir við dreifbýlisverslunina og það kemur einlægt í ljós að þegar þarf að skera niður í ráðuneytunum þá eru þessir peningar skornir, þeir eru aldrei notaðir. Ég segi það alveg eins og er að ég held að það sé mjög nauðsynlegt að menn taki sig dálítið alvarlega í þessari umræðu vegna þess að hér er um að ræða svið sem menn ráða ekki mjög mikið við nema að hluta til. Menn ráða ekki við markaðshliðina á þessu máli nema menn vilji afnema markaðsbúskap. Og það er út af fyrir sig umhugsunarefni hvort þessi till. til þál. sé um að leggja niður kapítalismann og má segja að það sé mál til komið að flutt sé þannig tillaga í þessari stofnun, en ég hef nú grun um að svo sé ekki, það eigi ekki að skoða tillöguna í því ljósi.
    Spurningin er þá um það hvort menn eru tilbúnir til þess að skoða þá þætti sem við í raun og veru ráðum við. Viljum við fara í það? Vilja menn fara í það að jafna orkuverð? Vilja menn fara í það að jafna símakostnað? Vilja menn fara í það að greiða niður og jafna flutningskostnað? Vilja menn fara í það eins og gert er t.d. að því er varðar verðlag á tóbaki og brennivíni, sementi, að því er varðar verð á landbúnaðarafurðum o.s.frv. eða hvað? Er það það sem menn eru að tala um? Hvað eru menn í raun og veru að tala um? Það er nauðsynlegt að átta sig á því hvað það er sem ríkisstjórnin á að gera því að hér stendur, með leyfi forseta:
    ,,Þá er ríkisstjórninni falið að grípa til ráðstafana í ljósi úttektarinnar er miði að jöfnun verðlags á lífsnauðsynjum.`` Hvað vilja menn ganga langt í jöfnun? Ég sé það í hendi mér, hæstv. forseti, að hér er um að ræða mjög flókið vandamál og alvarlegt, mál sem snertir búsetuþróun í landinu eins og hér stendur í greinargerð tillögunnar. Hér er t.d. talað um það að landsbyggðarfólk niðurgreiði vöruverð á höfuðborgarsvæðinu vegna lakari viðskiptakjara er landsbyggðarverslunin býr við. Hvað er hér verið að tala um? Hér er m.a. verið að tala um þá staðreynd að það er meira og minna búið að leggja niður heildverslun með tilteknar lífsnauðsynjar til landsins. Það er búið að leggja niður heildverslun og í staðinn hafa menn ákveðið að flytja vörur beint inn á vegum þessara stóru smásöluverslana, þ.e. Bónus- og Hagkaupskeðjanna, og þar af leiðandi er það svo að verslunin í dreifbýlinu býr við allt aðrar aðstæður að þessu leytinu til líka. Ég spyr, hæstv. forseti: Hvað vilja menn í raun og veru gera? Vilja menn vera með aðra skatta á dreifbýlisverslun? Eru menn til í það? Eru menn til í það t.d. að fella niður skatta á skrifstofu- og verslunarhúsnæði á dreifbýlisverslun? Ég var með tillögu um það ásamt hv. 5. þm. Vestf. fyrir fáeinum árum að dreifbýlisverslunin slyppi við skatt á skrifstofu- og verslunarhúsnæði þannig að það væri sérstaklega tekið út úr. Ekki vildu menn það. Eru menn að tala hér um sérstaka niðurgreiðslu á aðstöðu fyrir dreifbýlisverslun, t.d. að húsnæði verði borgað niður, fasteignagjöld verði borguð niður eða hvað eru menn að tala um? Ég held að það hljóti að vera eftirspurn eftir því hjá því fólki sem býr í dreifbýlinu við þetta svívirðilega háa vöruverð að menn segi það skýrt hvað þeir eru að tala um í þessum plöggum, vegna þess að ég skil þetta ekki þannig að menn séu með tillögur um að leggja niður kapítalismann sem er þó hugmynd út af fyrir sig, hæstv. forseti.