Vöruverð lífsnauðsynja og verðmunur á milli þéttbýlis og dreifbýlis

46. fundur
Miðvikudaginn 30. nóvember 1994, kl. 12:46:16 (2109)


[12:46]
     Ingi Björn Albertsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ár eftir ár hafa verðkannanir verið gerðar út um allt land og ár eftir ár hefur það komið fram í þessum verðkönnunum að ódýrasta matvöruverslun á landinu hefur verið úti í dreifbýlinu. Nú getur menn kannski greint á um hvar dreifbýlið hefst en mig minnir að hv. fyrrv. formaður Framsfl. hafi dregið línu hér við Straumsvík, þannig að ég hygg að það sé nokkuð öruggt að mega segja það að verslun upp á Akranesi sé dreifbýlisverslun. Þar var verslun sem heitir Einarsbúð ár eftir ár með lægsta vöruverð á landinu. ( IP: Ekki á landinu. Á landsbyggðinni.) Á landinu. Þannig að ég bið menn að athuga íhuga hvernig þessi verslun fór að þessu. Ég hygg að það liggi nokkuð ljóst fyrir. Það er með skynsamlegum innkaupum og með skynsamlegri álagningu fyrst og fremst. Þannig að eins og hv. þm. kom inn á hér áðan eru þess auðvitað dæmi að það er til lágt verð. En þarna vorum við að tala um lægsta verð sem fram kom í könnunum.