Vöruverð lífsnauðsynja og verðmunur á milli þéttbýlis og dreifbýlis

46. fundur
Miðvikudaginn 30. nóvember 1994, kl. 12:47:40 (2110)


[12:47]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegur forseti. Ég get tekið undir með þeim sem hér hafa talað og gert kröfur til flm. að þeir skilgreini nánar og segi okkur hvað þeir eigi við. Tillagan sem slík segir kannski ekki mikið en greinargerðina mætti lesa þannig að almennt sé vöruverð miklu hærra á landsbyggðinni en á Reykjavíkursvæðinu. Það er hins vegar ekki þannig. Það er rétt að það eru ákveðin svæði sem eiga við veruleg vandamál að stríða á landsbyggðinni varðandi verslun og varðandi það að halda uppi eðlilegu framboði af brýnum nauðsynjum. En það er því betur þannig að stór svæði á landsbyggðinni hafa hagrætt þannig í sinni verslun, komið henni þannig fyrir, að þar er í dag boðið hliðstætt vöruverð og er á höfuðborgarsvæðinu. Við eigum ekki og megum ekki, landsbyggðarfólk, ala stöðugt á því að hér sé allt saman mikið betra á höfuðborgarsvæðinu. Það er bara vísasta ávísunin á fleiri farmiða til fyrirheitna landsins.
    Ég get sagt og tala af nokkurri reynslu að á öllu Mið-Norðurlandi, á verslunarsvæði Skagafjarðar, Eyjafjarðar og Húsavíkur búa menn í dag við mjög hliðstætt vöruverð og gerist í Reykjavík. Þetta hefur náðst með mikilli hagræðingu og því að fara í verslunarhætti þar sem boðið er upp á styttri opnunartíma, þrengra vöruval, en þó það gott vöruval að neytendur hópast að þessum verslunum til að gera þar sín innkaup sem segir mér að þar fái menn þó þrátt fyrir að menn hafi skorið niður vörunúmer í verslun um helming, úr einhverjum 4.000 niður í 2.000, að þá fá menn þrátt fyrir allar þær nauðsynjar sem menn þurfa.
    Ég geri mér hins vegar alveg grein fyrir því að það eru ákveðin fámenn landsvæði sem eiga í erfiðleikum og þá eiga menn að einangra umræðuna og vandamálið við það. Það er líka miklu vænlegra til lausnar ef það er gert. Hversu mikið hið opinbera getur lagt þar af mörkum átta ég mig ekki á að fullu og leita þess vegna eftir því hvað hv. flm. eiga við með því. Þar sem ég þekki til hafa menn verið á fullu, ekki við að leita til hins opinbera heldur til þess að laga til hjá sjálfum sér og vita hvað menn geti gert til að koma þessum hlutum í betra lag. Það hefur m.a. verið gert eins og hér hefur verið nefnt með stórauknum beinum innflutningi, með því að komast fram hjá heildsölunum. Það kann vel að vera að það að stórir aðilar hafa farið þá leið geri það að verkum að minnstu aðilarnir sem eru upp á heildsölunarnar komnir eigi enn þá erfiðara, það má vel vera. Þá verða menn að skoða það og eins og ég sagði að einangra vandamálið. Slá þessu ekki hér upp sem einhverju allsherjarvandamáli landsbyggðarinnar því það er það ekki.