Vöruverð lífsnauðsynja og verðmunur á milli þéttbýlis og dreifbýlis

46. fundur
Miðvikudaginn 30. nóvember 1994, kl. 13:01:35 (2112)

[13:01]
     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er mikill misskilningur hjá hv. þm. að ég sé á móti jöfnun lífskjara. Ég bið hann um að leggja mér það ekki í munn eða ætla mér slíkt því þvert á móti er ég jafnaðarmaður eins og hann veit. En gallinn við þessa tillögu er sá að það er ekki gert ráð fyrir að gera neitt. Og hv. þm. veit að góð meining gerir enga stoð vegna þess að það er ekkert annað í þessari tillögu en frómar óskir, ekkert. Hv. þm. er aðili að ríkisstjórn sem hefur haft möguleika á því að gera eitt og annað í þessum málum. Hvað hefur ríkisstjórnin gert? Viðskiptaráðherrar hans, hæstv. viðskrh. Jón Sigurðsson og hæstv. viðskrh. Sighvatur Björgvinsson, hafa ekkert gert. Skipað tvær nefndir og önnur hefur skilað skýrslu en hin ekki. Sú seinni hélt síðast fund norður í Fljótavík á Hornströndum. Síðan hefur ekkert til hennar spurst. Það eru ákveðnir fjármunir í því skyni, 800 þús. eitt árið og 2 millj. annað og 1,5 millj. hitt árið á viðskrn., að taka á málum dreifbýlisverslunarinnar. Og hvað er gert? Ekkert. Það er afgangur. Ráðuneytið stendur þannig að málum að það verður að skila afgangi inn í ríkissjóð aftur af þessum fjárlagalið af því að það er ekkert við peningana gert. Þess vegna segi ég alveg eins og er, hv. þm., að mér fyndist sniðugt að byrja á því að flytja tillögu um þetta mál í þingflokki Alþfl. og gá áður en farið er að ráðast á aðra menn í salnum eins og hv. þm. gerði áðan.