Vöruverð lífsnauðsynja og verðmunur á milli þéttbýlis og dreifbýlis

46. fundur
Miðvikudaginn 30. nóvember 1994, kl. 13:09:25 (2116)


[13:09]
     Flm. (Gunnlaugur Stefánsson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Hv. þm. Jóhannes Geir Sigurgeirsson sagði það í lok andsvar síns að það þyrfti svo sem eflaust að grípa til einhverra aðgerða á afmörkuðum svæðum landsbyggðarinnar. Ég trúi því ekki að hv. þm. sé ekki kunnugri aðstæðum á landsbyggðinni en svo að láta þessi orð um munn sér fara. Hann þarf ekki að fara víða um landið til þess að verða þess áskynja að þetta er eitt stærsta vandamálið sem við er að etja í lífskjörum fólks á mjög mörgum svæðum. Það heyrir frekar til undantekninga þau svæði þar sem um lágt vöruverð er að ræða á landsbyggðinni sem jafna má við það sem gerist lægst á höfuðborgarsvæðinu.
    Ég get líka tekið undir það með hv. þm. að við þurfum auðvitað að skilgreina þetta vandamál. Það er einmitt það sem þessi tillaga fjallar um, að það verði skilgreint og ég veit að hv. þm. mun komast að raun um að það er nauðsyn á að gera það ef hann fer að lesa póstinn sinn og kynna sér hvað í póstinum stendur vegna þess að ef hann hefur fylgst með þeim verðkönnunum sem Samkeppnisstofnun hefur gert á undanförnum þremur árum þá hafa þær einmitt ekki verið heildarverðkannanir á milli landsvæða heldur einskorðast við ákveðnar tegundir vöru og þá á milli verslana og landsvæða. Þess vegna er þessi tillaga flutt m.a. um að það fari fram nákvæm úttekt þar sem kannaðar verði m.a. ástæður þess og í hverju felst sá mikli verðmunur sem raun ber vitni og hefur jafnmikil áhrif á lífskjör fólks og raun ber vitni.