Vöruverð lífsnauðsynja og verðmunur á milli þéttbýlis og dreifbýlis

46. fundur
Miðvikudaginn 30. nóvember 1994, kl. 13:11:37 (2117)


[13:11]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Að mínu mati þarf ekkert heldur að kanna ástæðurnar. Ástæðurnar liggja í augum uppi. Ástæðurnar eru þær að vöruverð er hærra á þeim svæðum þar sem baklandið er fámennt. Það þýðir einfaldlega að menn eru með minni umsetningu á sitt húsnæði, menn eru með hærri flutningskostnað. Þetta liggur allt saman fyrir. Það þarf ekkert að kanna þetta, hv. þm. En ég skal taka þátt í vinnu að kanna á hvern hátt hægt er að leysa þessi vandamál þar sem menn eiga við það að búa. Það væri þá nær að flytja tillögu sem sneri að þeim þáttum. Tillagan er svo almenn að hún segir ekkert.
    Við verðum að horfast í augu við það að lágu vöruverði ná menn ekki öðruvísi en með verulegri umsetningu og það getur einfaldlega þýtt það, hv. þm., að menn þurfi að nota stórbættar samgöngur í landshlutunum til þess að njóta lægra vöruverðs. En það dregur ekkert úr því sem ég hef sagt áður að það eru ákveðin svæði og ákveðnir staðir sem menn verða að leysa á annan hátt.
    Ég vil að lokum leyfa mér að spyrja hv. þm. hvort hann telur að landsbyggðin væri betur sett, hvort vöruverð þar væri lægra ef um það væru lög í landinu að vöruverð á öllum nauðsynjum ætti að vera alls staðar eins. Samkeppnin þurrkuð út. Ég svara hiklaust nei. Það er ekki lausnin, en mér finnst að verið sé að gæla við það í þessari tillögu. Við verðum því að leyfa hagkvæmninni og samkeppninni að njóta sín og landsbyggðarfólk eins og aðrir verða að skapa sér þær aðstæður að það geti gerst. Síðan tökum við og leysum sérstaklega vandamál þeirra sem þá standa út af.