Vöruverð lífsnauðsynja og verðmunur á milli þéttbýlis og dreifbýlis

46. fundur
Miðvikudaginn 30. nóvember 1994, kl. 13:35:07 (2122)


[13:35]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég leyfi mér að kalla þetta sýndarmennsku eins og tillagan er fram borin. Síðan gerist það að hér kemur 2. flm. að mér skilst og gefur allt aðra skýringu á tilgangi þessa tillöguflutnings heldur en áður lá fyrir og orðanna hljóðan kveður á um. Sem sagt, nú er tilgangurinn orðinn sá, að sögn hv. þm., að vekja athygli á því að þessi mál séu í hreinum ólestri. Það er rétt, þau eru náttúrlega í hreinum ólestri. En þá á líka að orða tillöguna þannig. Ég skal bara gera það, semja hér nýjan texta að tillögugrein, hæstv. forseti. Þá yrði þetta svona, með leyfi forseta: Till. til þál. um að vekja athygli á hörmulegri

stöðu strjálbýlisverslunarinnar og óþolandi verðmismun í kjölfar sjö ára veru Alþfl. í viðskrn. Það er ágætt að samþykkja slíka tillögu og þá er ég út af fyrir sig miklu sáttari við flutning hennar. Það er rétt sem hv. síðasti ræðumaður Gísli S. Einarsson sagði. Það er vissulega þörf á að vekja athygli á því í hversu hörmulegri stöðu þessi mál eru eftir sjö ára meðferð Alþfl. á þeim. Þessi síðustu ár hafa verið strjálbýlisversluninni og reyndar landsbyggðinni almennt séð mjög þung í skauti. Þannig að ef hv. þm. meinar það sem hann sagði hér áðan þá er örugglega hægt að ná samkomulagi um texta sem lýsir því á réttan hátt hvað fyrir mönnum vakir. Það sé að vekja athygli á og koma af stað umræðu um óþolandi stöðu þessara mála hvað varðar lífskjaramismun landsbyggðarinnar og mismun í vöruverði í kjölfar langrar stjórnarsetu Alþfl. og meðferðar Alþfl. á þessum málum. --- Kemur nú hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, hæstv. fyrrv. félmrh. hér í salinn seint og um síðir og og er þá hægt að fá hana hér inn í umræðuna um hennar þátt í því að ekkert hefur verið í þessum málum gert undanfarin ár.
    Vilji menn hins vegar taka á þessu máli eins og vert er og skylt þá þarf auðvitað að gjörbreyta textanum til viðbótar þessu að vekja athygli á frammistöðu Alþfl., og eins og ég sagði hér áðan að taka þá lífskjörin í sinni víðustu mynd inn í þá athugun. Þá gæti það þjónað einhverjum tilgangi að gera samþykkt af þessu tagi.