Vöruverð lífsnauðsynja og verðmunur á milli þéttbýlis og dreifbýlis

46. fundur
Miðvikudaginn 30. nóvember 1994, kl. 13:50:37 (2127)


[13:50]
     Flm. (Gunnlaugur Stefánsson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Hv. þm. Jóhannes Geir Sigurgeirsson hefur enga trú á að stjórnvaldsaðgerðir geti miðað að því að lækka vöruverð á lífsnauðsynjum á landsbyggðinni þar sem það er hæst. Ég vil bara minna

hv. þm. á að í umræðunum talaði líka hv. þm. Jón Kristjánsson ( JGS: Hann er líka í Framsfl.) sem gerði mjög skilmerkilega grein fyrir því í hverju margs konar stjórnvaldsaðgerðir gætu verið fólgnar. Ég tel að þær hugmyndir og þau ráð sem hv. þm. Jón Kristjánsson gaf inn í þessa umræðu gætu einmitt komið að miklu gagni við þá úttekt sem ég legg hér til og undirstrikar enn frekar nauðsyn á að slík heildarúttekt fari fram. Mér þykir það ekki gott til afspurnar að hv. þm. sama flokks, Jóhannes Geir Sigurgeirsson og hv. þm. Jón Kristjánsson, skuli vera svo ósammála í þessu máli. En ég þekki það vel að hv. þm. Jón Kristjánsson er mjög kunnugur þessum málum, sérstaklega á Austurlandi og mjög víða á landsbyggðinni. Hann veit að þarna kreppir að og þarna þarf að taka fast á málum. Þess vegna tek ég mikið mark á hans stuðningi við þetta mál eins og hann kom greinilega fram í upphafi umræðunnar og tel að hann tali þar frekar í nafni Framsfl. en hv. þm. Jóhannes Geir Sigurgeirsson vegna þess að mér koma að sönnu yfirlýsingar hans í þessum umræðum mjög á óvart.