Vöruverð lífsnauðsynja og verðmunur á milli þéttbýlis og dreifbýlis

46. fundur
Miðvikudaginn 30. nóvember 1994, kl. 13:52:32 (2128)


[13:52]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ef hv. þm. hefur hlustað á ræðu okkar framsóknarmanna þá mundi hann hafa heyrt að það ber ekki svo mikið á milli. Það er alveg rétt, hv. þm., það eru til ýmsar leiðir. Það eina sem hv. þm. nefndi var að taka virðisaukaskatt af flutningskostnaði. Það er rétt. Það hefur verið nefnd sú leið að stofna úreldingarsjóð dreifbýlisverslunar sem keypti upp verslunarhúsnæði --- nú bið ég hv. flm. að hlusta á mál mitt --- sem keypti upp húsnæði verslunar á þeim stöðum sem eiga erfiðast uppdráttar. Það er hægt að hugsa sér í einstökum tilfellum að smásöluverslun á ákveðnum afmörkuðum svæðum fá beina styrki. Það eru til fleiri aðgerðir. En eins og þingmennirnir setja málið upp, þeir segja vöruverð á höfuðborgarsvæðinu versus vöruverð í dreifbýlinu, þá spyr ég: Ætti þá úreldingarsjóður til að mynda, ætti verslun í Skagafirði, t.d. Skagfirðingabúð, að eiga rétt á því? Ætti KEA-Nettó að eiga rétt á þessu?
    Aðstæður eru einfaldlega svo breytilegar á landsbyggðinni að það er ekki hægt að setja málið upp á þennan hátt. Það er ekki hægt að taka á þessu öðruvísi en að skilgreina það þannig hvar kreppir að, hvar geta menn leyst þetta með almennum aðgerðum, hvar geta menn lagað það til hjá sér og síðast þegar búið er að þrengja þann hóp, hvar þurfa að koma til stjórnvaldsaðgerðir.
    Ekkert af þessu kemur fram í tillögu eða málflutningi flm. sem segir mér það að það standi ekkert mjög mikið á bak við þetta, þetta sé eitthvað almennt gaspur sem flm. geta ekki skilgreint nánar þó sé marggengið á þá í þessari umræðu.