Vöruverð lífsnauðsynja og verðmunur á milli þéttbýlis og dreifbýlis

46. fundur
Miðvikudaginn 30. nóvember 1994, kl. 14:02:13 (2130)


[14:02]
     Flm. (Gunnlaugur Stefánsson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það er rétt að Alþfl. hefur farið með viðskipta- og verðlagsmál í landinu í sjö ár og það er líka rétt að á þessu sjö ára tímabili hefur verðlag á nauðsynjavörum stórkostlega lækkað í landinu öllu. Það hefur líka lækkað þar sem það er hæst. Um þetta eru allir sammála að fyrir myndarlega framgöngu Alþfl. í verðlagsmálum sl. sjö ár þá hefur verðlag á matvælum og lífsnauðsynjum lækkað í landinu. Menn þurfa bara að kynna sér verðlagskannanir til að vita það og það vita allir og þekkja. Hitt er aftur á móti vandamál sem er sameiginlegur arfur okkar allra hv. þingmanna að takast á við og það er þetta vandamál sem felst í þeim verðmun er ríkir á milli höfuðborgarsvæðisins fyrst og fremst og landsbyggðarverslunarinnar með þó fáeinum undantekningum eins og hér hefur komið fram í umræðum. Þetta er sérstakt vandamál. Heildarverðið hefur verið að lækka á landinu öllu en verðmunurinn er eigi að síður mikill og alvarlegur og þess vegna er þessi tillaga lögð fram til þess að leita leiða um hvernig við getum lækkað þennan verðmun. Um það fjallar umræðan.
    Varðandi hitunarkostnaðinn þá get ég líka sagt frá því og upplýst hv. þm. Jóhann Ársælsson um það að hitunarkostnaðurinn er lægri núna á köldu svæðunum vegna þess að niðurgreiðslur hafa verið auknar en hann var í upphafi kjörtímabilsins og töluvert mikið lægri heldur en t.d. árið 1987 þegar Alþfl. kom fyrst að þessum málum í ríkisstjórn.