Vöruverð lífsnauðsynja og verðmunur á milli þéttbýlis og dreifbýlis

46. fundur
Miðvikudaginn 30. nóvember 1994, kl. 14:10:04 (2134)


[14:10]
     Ingi Björn Albertsson :
    Hæstv. forseti. Mér þykir ákaflega erfitt að flytja seinni ræðu mína án þess að hv. þm. Gísli S. Einarsson sé viðstaddur.
    ( Forseti (GHelg) : Forseti vill upplýsa að hv. þm. er farinn og varð að bregða sér af bæ þannig að hann mun ekki verða frekar viðstaddur þessa umræðu.)
    Hæstv. forseti. Það er einnig mjög erfitt að halda áfram með þessa umræðu án þess að hafa hæstv. viðskrh. hér. Hér hafa komið slíkar yfirlýsingar fram af hálfu alþýðuflokksmanna að það er alveg nauðsynlegt að fá að rabba aðeins við hæstv. viðskrh.
    ( Forseti (GHelg) : Forseti vill upplýsa að hæstv. viðskrh. mun vera lasinn í dag þannig að það er mjög erfitt við að eiga og ekki í valdi forseta að leysa.)
    Hæstv. forseti. Við skulum reyna að klára þetta og vonandi kemst málið út úr nefnd og þá er hægt að halda áfram að ræða við þá aðila sem ekki sjá sér fært að vera hérna. En það er ákaflega slæmt þegar annar framsögumaður kemur í ræðustól, seint inn í umræðuna, og blandar sér inn í hana með þeim hætti sem hann gerði og ásakar menn um ýmsa hluti en hleypur síðan á brott og það er ekki hægt að ræða við hv. þm. Ég verð því eiginlega að harma það. En ég ætla að leiðrétta hv. þm. enn einu sinni, ég gerði það úr ræðustól fyrir nokkrum dögum þegar hann var að ræða um umboðslaun til greiðslukortafyrirtækjanna og þau væru mismunandi fyrir dreifbýlið og höfuðborgarsvæðið. Mér finnst menn fara hér allt of geyst og þeir gæti ekki hófs í því að ráðast að höfuðborgarsvæðinu og bera það sýknt og heilagt saman við landsbyggðina. Ég hef sagt og ég ætla að segja það enn einu sinni að sú þóknun eða umboðslaun sem greidd eru til

greiðslukortafyrirtækjanna fara eftir veltu verslana. Þau fara ekki eftir staðsetningu. Verslanir úti í hinum dreifðu byggðum landsins borga sama hlutfall af veltu og smærri verslanir í Reykjavík. Það er nákvæmlega sama þannig að jöfnuðurinn er og menn verða að gæta svolítið hófs í umræðunni þegar þeir eru að bera saman höfuðborgina og landsbyggðina.
    Menn koma líka inn á viðskiptakjör og segja að þau séu verri fyrir dreifbýlisverslunina en verslunina á höfuðborgarsvæðinu. Ég vil bara biðja menn að koma hér með haldbær rök fyrir slíkum málflutningi. Ég vil fá að sjá og ég vil fá að heyra slík rök vegna þess að ég tel að dreifbýlisverslunin og það sem ég kallaði í fyrri ræðu minni, kaupmaðurinn á horninu, sitji við sama borð. Ég segi það vegna þess sem ég hef sagt áður að flutningskostnaður er að mjög miklu leyti greiddur af innflutningsaðilanum. Menn eru því að kaupa vöruna á nákvæmlega sama verði. Þess vegna óska ég eftir því að menn komi hér með dæmi en ekki staðhæfingar án þess að rökstyðja þær eitthvað frekar.
    Það kom einnig fram hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni að það mætti hugsa sér að fella niður flutningskostnaðinn. Þá spyr ég á móti: Eru menn tilbúnir að láta það virka báðar leiðir? Menn hafa ekki viljað ræða það í þessari umræðu sem ég sagði í minni fyrri ræðu að það er orðið mjög mikið um það að aðilar úti um allt land eru farnir að flytja inn beint sjálfir og aðilar úti á landsbyggðinni eru farnir að selja inn á Reykjavíkurmarkaðinn. Eru þá menn tilbúnir að fella virðisaukaskatt af flutningskostnaðinum þá leiðina líka? Menn mega þá líka fara að velta því fyrir sér þar sem vörur eru fluttar beint inn eins og í Skagafirði og eins og á Snæfellsnesi og eins og víðar, af hverju er þessi munur á vöruverðinu? Ég held að hann sé, eins og ég hef áður sagt, fyrst og fremst út af álagningunni. Fyrst og fremst. Það er þess vegna sem ég fagnaði þessari þáltill. vegna þess að ég tel að það sé fyllilega tímabært að það komi fram af hverju þessi verðmismunur er í raun og veru. Ég held að svarið muni verða fyrst og síðast þetta að álagningin í dreifbýlisversluninni er of há. En um leið og ég segi það, þá skil ég það ósköp vel vegna þess að menn eru auðvitað með mjög lítið markaðssvæði. Menn eru með þetta nokkur hundruð manns og kannski upp í þúsund manns og 3--4 verslanir á staðnum og ef slík umsetning á að geta staðið undir sér þá auðvitað verður að hækka álagninguna.
    Ég skil það ekki og hef aldrei skilið það. Ég nefndi ákveðið dæmi um hvernig menn geta sniðgengið virðisaukaskattskerfið og ég hef margoft rætt það hér úr þessum ræðustól og ég hef margoft rætt það í hv. efh.- og viðskn. og það eru engin viðbrögð. Ég fór með konkret dæmi, lítið reikningsdæmi fyrir menn þar sem menn geta gert út á virðisaukaskattskerfið og gert út á ríkissjóð og látið hann endurgreiða sér. Og það eru auðvitað fyrst og fremst hinir stóru, sterku sem geta gert það í krafti fjármagns. Það eru engin viðbrögð. En menn geta komið hér upp og heimtað skattlagningar á blaðsölubörn og merkjasölubörn og menn geta leitað að skattsvikurum í öllum skúmaskotum, en þegar það er bent á konkret dæmi þar sem er verið að svíkja skattkerfið þá segir ekki nokkur maður orð. Þetta furðar mig.
    Framsóknarmenn sem hér hafa tekið nokkurn þátt í umræðum, þessir verndarenglar virðisaukaskattskerfisins sem börðust gegn afnámi matarskatts á síðasta þingi, börðust fyrir því að við værum að opna kerfið og vildu verja virðisaukaskattskerfið alveg í botn, það heyrist ekki stuna úr horni. Þannig að ég skil ekki svona málflutning. Síðan koma hv. þingmenn Alþfl. og boða það að hér eigi að taka upp verðlagshöft að nýju. Maður hefur verið að hlusta á hæstv. utanrrh., formann flokksins, segja það í sjónvarpi að Alþfl. sé nú yfirleitt á undan tímanum. Ég skil þetta ekki öðruvísi en að flokkurinn sé á hröðu afturhaldi, hann sé að hverfa 30 ár aftur í tímann með því að vilja taka upp verðlagshöft og verðlagsákvæði. Hv. þm. Gísli S. Einarsson, sem ekki er hér núna til að svara fyrir, sagði það í frammíkalli að hann vildi fá hámarksverð og lágmarksverð. Það er ekkert annað en afturhvarf til fyrri tíma og er nú alveg á skjön við þá stefnu sem flokkurinn hefur verið að boða. Og það er fyrst og fremst af þeim ástæðum sem ég tel alveg nauðsynlegt að hæstv. viðskrh. verði hér til staðar og ræði við okkur um þessa nýju stefnu sem hér er boðuð hjá Alþfl. Hitt er annað mál að ef hv. flutningsmenn hefðu kynnt sér samkeppnislögin þá gætu þeir séð að þar er heimild til framleiðenda og til innflytjenda til þess að marka hámarksverð. Það er sú eina heimild sem er til.
    Hæstv. forseti. Það er margt um þetta að segja, en ég virði tímamörkin. En vil aftur fagna tillögunni að lokum á þeirri einu forsendu að ég tel að það sé mjög gott að fá það skýrt og klárt fram í dagsljósið, þó ég taki undir það að þessar upplýsingar eru allar til hjá Samkeppnisstofnun þá sakar það ekki neitt, við sækjum þær þangað sem sitjum í efhn. og viðskn., en þá er gott að fá það fram í dagsljósið af hverju þessi verðmismunur er.