Vöruverð lífsnauðsynja og verðmunur á milli þéttbýlis og dreifbýlis

46. fundur
Miðvikudaginn 30. nóvember 1994, kl. 14:18:55 (2135)


[14:18]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Þetta er nú að verða hin merkasta umræða og í raun og veru má segja að tillögugarmurinn hafi þjónað nokkrum tilgangi þó enginn væri annar en sá að hér hefur kviknað talsverð umræða um málefni strjálbýlisverslunar, vöruverð á landsbyggðinni og annað því um líkt og er það auðvitað vel. Ég vil segja það við hæstv. forseta að að sjálfsögðu geta menn kynnt eða boðað hugmyndir sínar um brtt. við 1. umr. um mál, hvort sem heldur er munnlega eða skriflega og ég var nú eingöngu á léttum nótum að vekja á því athygli að ef taka ætti hv. þm. Gísla S. Einarsson, 4. þm. Vesturl., alvarlega, þá upplýsti hann það sem megintilgang tillöguflutningsins að vekja athygli á óþolandi ástandi í þessum efnum. Ég var svona að leyfa mér að hjálpa honum lítillega við að umorða tillögugreinina þannig að hún lýsti því sem menn væru þá að tala um, þ.e. þetta væri till. til þál. um að vekja athygli á hörmulegri frammistöðu Alþfl. í þessum málum. Það er mjög einfalt og auðvelt að orða það þannig að það skiljist og er þá rétt kannski að hafa þá báða saman hæstv. ráðherranna, viðskrh. og félmrh., þessa flokks.
    Staðreyndin er auðvitað sú að þrátt fyrir mikið umtal, nefndaskipun og umfjöllun um þetta á ýmsum vettvangi, bæði hér á þingi, í ríkisstjórn, í skýrslum Byggðastofnunar og víðar sl. ár, þá hefur ekkert verið gert, ekkert, í þessu efni sem tillagan fjallar beinlínis um. Þeir snillingarnir, hæstv. ráðherrar Alþfl., Jón Sigurðsson, sem nú telur seðla í Finnlandi, og hæstv. núv. viðskrh., Sighvatur Björgvinsson, hafa ekkert gert. Sömuleiðis hefur hæstv. félmrh., sem fer auðvitað með málefni sem þar undir heyra, lífskjörin, tekjuskiptinguna og annað því um líkt, ekki lagt neitt af mörkum svo að mér sé kunnugt um í þessum efnum. Og það er þetta sem ég var að vekja hér athygli á.
    Í öðru lagi vil ég gjalda varhug við því að þetta vandamál leysist, þ.e. hátt vöruverð á landsbyggðinni leysist með verðlagsákvæðum. Menn kunna að geta haft hemil á því í einstökum tilvikum ef menn eru að þvinga fram óheyrilega hátt verðlag í krafti einokunar í einstökum byggðarlögum, en hinn undirliggjandi vandi hverfur ekki með verðlagstilskipunum. Þær forsendur, þær aðstæður sem skapa að breyttu breytanda þetta háa vöruverð sem valda mismuninum, þær hverfa ekki þó menn fari að beita einhverjum verðlagsástæðum, þ.e. flutningskostnaðurinn, minni velta og hægari í gegnum verslunina, hærra orkuverð, sem verslunin eins og aðrir sem búa á landsbyggðinni verður að borga, því stór liður í rekstrarkostnaði verslunar er orkuverðið, bæði rafmagn og hiti og ýmis tæki, kæliborð og annað því um líkt sem þar eru keyrð. Orkunotkun er tiltölulega mikil t.d. í matvöruverslun í hlutfalli við veltu miðað við flestar aðrar greinar. Það spilar inn í hátt vöruverð á landsbyggðinni að verslunin sjálf borgar miklu hærra orkuverð heldur en þar sem það er hagstæðast. Smærri einingar í innkaupum o.s.frv., það er erfiðara að skila því sem gengur af í sendingum, það er erfiðara að skila gallaðri vöru o.s.frv. Þessar undirliggjandi forsendur hverfa ekki þó að menn fari út í einhverjar verðlagsákvarðanir.
    Og af því að hv. þm. Gunnlaugur Stefánsson er sífellt að tuða hér um Blöndu, þá er rétt að segja það eins og það er að ár eftir ár, á árunum 1983--1987, lagði Alþb. einmitt til við afgreiðslu lánsfjárlagafrumvarpa að framkvæmdum við Blöndu yrði frestað eða hægt á þeim. Við fluttum á hverju ári, á árunum 1983, 1984, 1985 og 1986, brtt. við frv. til lánsfjárlaga akkúrat þar um, en það var jafnan fellt og því fór sem fór að Blanda varð auðvitað allt of snemma á ferðinni. Ég hygg, hæstv. . . .  (Gripið fram í.) Ja, það liggur við að við gætum það, hv. frammíkallandi, ef orkukerfið væri þannig skipulagt og nýttar til fulls aðrar virkjanir þá liggur við að við gætum enn þá verið án Blöndu. Þá væri að vísu minna öryggi í kerfinu kannski á vissum tíma, en framleiðslugeta Blöndu er að mestu leyti umfram þarfir orkumarkaðarins eins og hann er í dag. Það er gott og hollt fyrir hv. þm. Gunnlaug Stefánsson að vita þetta.
    En ég hygg, hæstv. forseti, að ef menn vilja virkilega taka á þessum málum þá eru þarna fjölmargir þættir sem við getum snúið okkur að beint að skoða. Við skulum skoða skattlagningu verslunarinnar í strjálbýlinu sérstaklega. Getum við náð samkomulagi um það hér að fella niður eða endurgreiða að einhverju leyti skatta og létta þannig undir með þessari verslun? Það er hægt, það er gert sums staðar erlendis, ef ég man rétt t.d. í Noregi.
    Í öðru lagi orkuverðið. Getum við orðið sammála um að endurgreiða eða jafna orkuverðið með einhverjum hætti þannig til verslunar á landsbyggðinni eða í hinu eiginlega strjálbýli að sá kostnaðarliður verði jafn?
    Í þriðja lagi flutningskostnaðurinn. Eru menn tilbúnir til að taka jákvætt á því máli? Þungaskatturinn til að mynda verkar að verulegu leyti eins og skattlagning í gegnum vöruverð á landsbyggðina. Það gerir það því að þungaskatturinn spilar óheyrilega þungt orðið inn vöruverðið í versluninni á landsbyggðinni sem að verulegu leyti er orðin háð landflutningum með sín aðföng.
    Ég nefni í fjórða lagi samgöngurnar sjálfar. Sjálfstæðismenn og hæstv. samgrh. hælast mikið um yfir því að hafa lagt niður Skipaútgerð ríkisins, telja það mikið afrek og hafi með því sparað ríkissjóði einhverja peninga. En hafa menn athugað, þar á meðal stuðningsmenn þessarar stjórnar, hv. þm. Gunnlaugur Stefánsson, tillögumaður, hefur hann athugað hvort eitthvað af þeim kostnaði hefur ekki ósköp einfaldlega flust yfir í hærra vöruverð í þeim byggðarlögum sem búa nú við skertar samgöngur? Og hver er þá hinn þjóðhagslegi ávinningur af því? Hann er þá að sama skapi minni, án þess að ég sé að segja að þarna hafi ekki orðið einhver nettósparnaður, en ég fullyrði að að einhverju leyti er þessi hætta fyrir hendi. Að það sem áður var jafnað í gegnum framlög ríkisins, t.d. í flutningsstyrkjum af ýmsu tagi sé núna borið uppi með hærra vöruverði íbúa á landsbyggðinni.
    Ég nefni í fimmta lagi fjármagnskostnað. Það er alveg ljóst að fjármagnskostnaður verslunar í strjálbýlinu er mjög hár vegna þess að hún þarf að liggja uppi með meira birgðahald og hægari veltu. Eru menn tilbúnir til þess að láta til að mynda Byggðastofnun taka upp einhvers konar birgðalán á hagstæðari kjörum til strjálbýlisverslunarinnar þannig að menn lækki þann lið? Það eru slíkir hlutir sem væri hollt að ræða hér og fá fram afstöðu manna til, en ekki einhver könnun án mjög nákvæmlega skilgreindra markmiða eins og hér er á ferðinni.

    Og ég segi aftur og enn, hæstv. forseti: Mismunurinn í vöruverðinu liggur í grófum dráttum fyrir. Ef menn vilja kanna eitthvað úti á landsbyggðinni sérstaklega þá verð ég nú að segja eins og er að það sem ég hefði mestan áhuga á að yrði kannað um þessar mundir er fylgi Alþfl. á landsbyggðinni og ég væri alveg til í að gera þá viðaukatillögu við þessa að til viðbótar við vöruverðið yrði fylgi Alþfl. á landsbyggðinni kannað sérstaklega. Það er að vísu kannski til mikils mælst að ætlast til þess að menn kanni það sem tæplega mælist lengur, en engu að síður væri nú fróðlegt að vita hvernig það liggur um þessar mundir.