Vöruverð lífsnauðsynja og verðmunur á milli þéttbýlis og dreifbýlis

46. fundur
Miðvikudaginn 30. nóvember 1994, kl. 14:29:21 (2137)


[14:29]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það er barnalegur misskilningur að halda að vöruverð á landsbyggðinni lækki bara si svona með því einu að samþykkja tillögu um að kanna hluti sem liggja í raun og veru þegar fyrir. Hvaða áhrif hefur það á vöruverð á landsbyggðinni? Ég spyr. Það gerist auðvitað ekki þannig og það sem ég var að reyna að fá hér inn í umræðuna er það að ef menn meina eitthvað, þá eiga menn að ráðast að rótum vandans, að hinum undirliggjandi orsökum þess að vöruverð á landsbyggðinni er hærra. Og ég spurði: Eru menn tilbúnir til að taka þar á þáttum eins og sköttum, vöruverði, flutningskostnaði, fjármagnskostnaði og öðru slíku? Það skiptir máli en ekki hitt að pexa um það hvort einum flokki eða öðrum sé treystandi í þeim kappræðustíl sem hv. þm. Gunnlaugur Stefánsson temur sér hér og segir að það hafi komið fram hér í umræðunni að Alþb. sé ekki treystandi til þess. Nei, bara Alþfl., sem hefur farið með þessi mál í sjö ár og ekkert gert. Hvers konar röksemdafærsla er þetta? Ég held að hv. þm. Alþfl. eigi betur heima sem aðalleikari í einhverju absúrdleikriti, svoleiðis er hans málflutningur hér.
    Nei, og ég endurtek það, að það sem þarf að skoða eru auðvitað lífskjörin almennt, ef menn meina eitthvað með þessu, vegna þess að vöruverðið eitt stendur ekki fyrir nema kannski 25--30% af útgjöldum heimilanna, afgangurinn eru aðrir þættir. Þar eru líka á ferðinni hlutir sem mismuna stórkostlega eftir búsetu, eins og aðgengi manna að þjónustu, menntun, heilbrigðisþjónustu og öðru slíku, fargjöld eða flutningskostnaður þeirra sem búa á landsbyggðinni o.s.frv. Vilji menn skoða reynsluna þá skulu menn bera saman frammistöðu Alþfl. í þessum málum sl. sjö ár og því sem aðrir hafa gert. Hér var símkostnaður nefndur sem dæmi. Á tveimur árum lækkaði hann í tíð fyrri ríkisstjórnar þannig að áður var langlínutaxtinn áttfaldur innanbæjartaxti en þegar sú ríkisstjórn fór frá þá var hann þrefaldur. Hvað hefur Alþfl. gert af þessu tagi í sambandi við orkuverðið, sem hann hefur farið með í sex ár, í sambandi við vöruverðið á landsbyggðinni? Ekkert. Svo er hv. þm. að segja að þessi umræða hafi eitthvað sannað í þeim efnum að einum flokki sé ekki treystandi öðrum fremur. Reynslan hefur sýnt að Alþfl. gerir ekki neitt í þessum málum. Það er það sem liggur fyrir.