Viðlagatrygging

47. fundur
Föstudaginn 02. desember 1994, kl. 10:34:32 (2143)


[10:34]
     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Öllum hv. þm. er efalaust í minni það hörmulega snjóflóð sem varð á Ísafirði veturinn 1994 og lagði í rúst í einu vetfangi öll skíðamannvirki Ísfirðinga sem þeir höfðu byggt upp á löngum tíma og með mikilli sjálfboðavinnu og enn fremur alla útivistaraðstöðu og sumarbústaði Ísfirðinga í Tungudal, en þar hafði verið sumarhúsabyggð frá fyrstu áratugum aldarinnar og var sá staður mjög kær mörgum Ísfirðingum. Þar varð líka hörmulegt manntjón. Eftir þessa atburði átti bæjarstjórn Ísafjarðarkaupstaðar viðræður við ríkisstjórn. Og forsrh. fyrir hönd ríkisstjórnarinnar gaf þá yfirlýsingu að ríkisstjórn Íslands mundi vinna með bæjaryfirvöldum á Ísafirði varðandi skoðun tjónamála og síðar veita bæjarstjórn Ísafjarðar liðsinni eftir því sem ríkisstjórn Íslands gæti til þess að greiða úr þeim tjónum sem urðu þar. Starfshópi þriggja ráðherra var falið að skoða málið, þ.e. starfshópi sem skipaður var af forsrh., trmrh. og fjmrh. Starfshópurinn komst m.a. að þeirri niðurstöðu að það væri rétt og eðlilegt að taka til skoðunar breytingar á lögum um Viðlagatryggingu Íslands og er frv. það sem hér er á þskj. 280 flutt til þess að óska eftir stuðningi frá hinu háa Alþingi við þær breytingar sem starfshópnum þótti rétt að gera á lögum um Viðlagatryggingu Íslands.
    Breytingarnar eru þær að í fyrsta lagi er gert ráð fyrir því að við 2. mgr. 5. gr. laganna bætist nýr töluliður sem verði þá 6. tölul. og er þar fjallað um þau mannvirki sem skulu skyldutryggð hjá Viðlagatryggingu Íslands og Viðlagatryggingu Íslands er þá um leið skylt að greiða bætur ef tjón verður. Nú bætast sem sé skíðalyftur við önnur þau mannvirki sem upptalin eru í þessari grein, 5. gr., og skulu skyldutryggðar samkvæmt lögum um Viðlagatryggingu Íslands. Með þessu er verið að gera skíðamannvirki skyldutryggð og að sjálfsögðu verða eigendur þessara mannvirkja síðan að greiða tryggingaiðgjöld til Viðlagatryggingar eins og fyrir önnur mannvirki sem tryggð skulu.
    Ég vil taka það fram, virðulegi forseti, að auðvitað getur komið til álita að taka fleiri mannvirki inn í skyldutryggingu en þau sem upp eru talin í 2. mgr. 5. gr. auk skíðalyftna og vænti ég þess að hv. heilbr.- og trn. sem væntanlega fær þetta frv. til skoðunar taki þá til athugunar hvort eðlilegt sé og æskilegt að fleiri mannvirki verði skyldutryggð en talin eru upp í greininni. Ég vil aðeins árétta þetta vegna þess að síðar í frv. kemur fram að afnumin er heimild stjórnar Viðlagatryggingar Íslands til að taka í tryggingu önnur mannvirki en þau sem skyldutryggð eru, þannig að upptalningin í lögunum verður þá tæmandi og er þeim mun ríkari ástæða til að athuga hvort ekki sé rétt að taka fleiri mannvirki upp í skyldutryggingu en nú eru talin upp í lögunum að viðbættum skíðalyftum. Ég vænti þess, virðulegi forseti, að hv. nefnd skoði það.
    Það liggur einnig fyrir til þess að upplýsa frekar að ýmsir aðilar hafa kannað hvort unnt væri að tryggja skíðalyftur og skíðamannvirki. Það gerðu Ísfirðingar m.a. á sínum tíma. Þá var þeim tjáð að það væri ekki unnt að taka slíkar tryggingar þannig að þeir gerðu tilraun til þess að tryggja þessi mannvirki á sínum tíma án þess að sú tilraun gengi eftir.
    Til þess að ákvæði laga um Viðlagatryggingu Íslands samrýmist reglum EES-samningsins er svo nauðsynlegt að fella úr gildi heimild Viðlagatryggingar til þess að taka að sér vátryggingu annarra eigna en þeirra sem skylt er að vátryggja. Þess vegna er í 2. gr. frv. gert ráð fyrir því að 6. gr. laganna falli niður og samhliða eru breytingar gerðar á 11. gr. laganna. Samkvæmt þessu er því ekki lengur heimild fyrir stjórn Viðlagatryggingar að taka í tryggingu önnur mannvirki en þau sem upp eru talin í lögunum að skyldutryggja skuli eins og ég vék að hér áðan.
    Þá er einnig á að líta að við setningu laga um Viðlagatryggingu var gerð breyting á 19. gr. eldri laga um heimild stjórnar til að veita styrki til björgunarsveita vegna starfsemi sem viðurkennd væri af Almannavörnum ríkisins. Í skýringum með frv. við greinina sem nú er 21. gr. gildandi laga er ekki að sjá að breyta hafi átt framkvæmd styrkveitinga til varnar tjóni af völdum náttúruhamfara. Engu að síður hefur stjórnin með stoð í þessari nýju 21. gr. hafnað styrkumsóknum frá björgunarsveitum með þeim rökum að heimildin sé fallin niður. Ég tel að það hafi ekki verið ætlun Alþingis eins og ég gat um áðan að svo væri gert og þess vegna er í 4. gr. frv. ákvæði um að stjórninni sé heimilt að veita styrki til björgunarsveita vegna starfsemi sem viðurkennd er af Almannavörnum ríkisins og eru þá tekin öll tvímæli af um það að stjórninni sé heimilt að veita þessa styrki eins og hún áður gerði.
    Þá er loks í 5. gr. ákvæði um að við gildandi lög bætist bráðabirgðaákvæði þess efnis að á árinu 1994 sé Viðlagatryggingu Íslands heimilt að greiða bætur vegna tjóns sem varð í snjóflóðum veturinn 1994 á skíðalyftum á Ísafirði. Tekið er fram í þessari grein að greiða skuli bæturnar miðað við að lyfturnar hefðu verið tryggðar samkvæmt lögum að frádreginni eigin áhættu skv. 10. gr. og iðgjaldagreiðslu vegna ársins 1994. Með þessum hætti er lagt til við Alþingi að gengið sé til móts við Ísfirðinga vegna þess mikla tjóns sem varð þar á skíðamannvirkjunum. Mér er það fyllilega ljóst að hér er um nokkuð óvanalega tillögugerð að ræða. Það er auðvitað Alþingi sem ákveður og hefur vald til þessarar ákvörðunar en ég legg til að þessi ákvörðun verði tekin eins og hér er frá greint.
    Virðulegi forseti. Ég tel að ég hafi lokið við að mæla fyrir frv. og skýrt efni þess og leyfi mér að leggja til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn.