Brunatryggingar

47. fundur
Föstudaginn 02. desember 1994, kl. 11:00:44 (2146)


[11:00]
     Finnur Ingólfsson :
    Virðulegi forseti. Þennan morgun hefur hæstv. heilbr.- og trmrh. komið með tvö lagafrumvörp inn í þingið sem bæði fela það í sér að menn eru að tryggja eftir á, frv. um viðlagatryggingu þar sem hæstv. ráðherra ætlar að tryggja skíðalyfturnar á Ísafirði eftir á og nú frv. um breytingu á lögum um brunatryggingar, nr. 48/1994, þar sem hæstv. ráðherra ætlar að tryggja sjálfan sig eftir á.
    Eftirátrygging hæstv. ráðherra felst í því að 5. sept. sl. gaf hæstv. ráðherra út reglugerð á grundvelli laga um brunatryggingar sem samþykktar voru Alþingi í fyrravor. Það er samdóma álit lögfræðinga að sú reglugerð hafi ekki staðist lög. Þrátt fyrir að skiptar skoðanir hafi verið í þeirri nefnd sem fékk það hlutverk að endurskoða lögin um brunatryggingar, þá kemur það fram hjá þeim hv. nefndarmönnum sem þar áttu sæti að þeir telja í fyrsta lagi að lagagrundvöllurinn sé mjög tæpur fyrir reglugerðinni. Aðrir nefndarmenn telja að engin lagastoð sé fyrir því að setja þessa reglugerð. Ég vitna í Morgunblaðið frá 15. okt. 1994 þar sem segir í viðtali við Jón G. Tómasson borgarritara að lög um brunatryggingar heimili gjaldtöku vegna virðingar en engin heimild sé til að leggja umsýslugjald á allar húseignir í landinu, alls 35 millj. kr. á ári. Síðan heldur hann áfram og segir: ,,Ég tel að þetta sé ólögmæt skattheimta og hafi enga lagastoð. Ég er ekki í nokkrum vafa um að það skortir lagastoð fyrir þessari gjaldtöku``, segir einnig Ingvar Sveinbjörnsson, hæstaréttarlögmaður hjá Vátryggingafélagi Íslands. Hann segir að fjölmargir lögfræðingar hafi skoðað þetta mál og allir séu sömu skoðunar.
    Nú átti hins vegar þetta gjald ekki að leggjast á fyrr en um áramót og er auðvitað gott að hæstv. heilbr.- og trmrh. skuli hafa komið með inn í þingið frv. sem á að gera það að verkum að hæstv. ráðherra sé tryggður fyrir því að allt sé í lagi með reglugerðina sem hann setti 5. sept.
    Hitt er svo aftur annað mál hvort ekki er hér um tvísköttun að ræða, að þeir sem eiga húseignir séu að vissu leyti búnir að greiða þetta umsýslugjald. Það verður svo, ef ég skil lögin rétt og reglugerðina sem nú er verið að leita eftir lagastoð fyrir, að húseigendur greiða hvort sem þeir nota þjónustu Fasteignamatsins eða ekki. Með öðrum orðum er um að ræða beina skattlagningu á alla íbúðareigendur í landinu sem nemur 0,03‰ af brunabótamati húseigna og á að renna til Fasteignamats ríkisins. Þetta hlýtur að vekja upp þá spurningu hvort ekki muni draga úr fjárveitingum til Fasteignamatsins af fjárlögum en verða greitt af öllum íbúðareigendum sem er nýr skattur á þá að mínu viti. Því spyr ég hæstv. heilbr.- og trmrh.: Getur hæstv. ráðherra fallist á það sem fram kemur í viðtali við Jón G. Tómasson frá 15. okt. 1994, að á þá sem eiga íbúðir fyrir sé um tvísköttun að ræða?

    Ég er í sjálfu sér ánægður með það að hæstv. ráðherra skuli koma inn með þetta frv. til þess að vera nú tryggður og má kannski segja að það sé ekki of seint því að enn eru ekki komin áramót og þar af leiðandi geti reglugerðin hugsanlega staðist lög þegar að því kemur að gjaldið verði lagt á, en hins vegar er alveg ljóst að hún stenst ekki þau lög sem núna eru í gildi.