Menntun á sviði sjávarútvegs og matvælaiðnaðar

47. fundur
Föstudaginn 02. desember 1994, kl. 11:19:44 (2149)

[11:19]
     Þuríður Bernódusdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka flutningsmönnum fyrir að reifa þetta mál á Alþingi. Hér tel ég vera á ferðinni hið merkilegasta mál og orð í tíma töluð. Inntak tillögunnar er að tengja saman menntun og atvinnulífið.
    Það hefur sýnt sig hjá öðrum þjóðum að mikill ávinningur hlýst af því að tengja saman skólanám og þjálfun á vinnustöðum, þ.e. nemendum er kynnt atvinnulífið og vil ég taka undir með flutningsmönnum að menntun á sviði sjávarútvegs og matvælaiðnaðar njóti sérstaks forgangs í þeim efnum og festist sem fyrst í sessi í menntastefnu okkar.
    Á tímum mikils samdráttar í fiskveiðum, versnandi afkomu þjóðarbúsins og versnandi lífskjara verðum við að beina sjónum okkar sérstaklega að mikilvægasta atvinnuvegi okkar, sjávarútveginum, og leita allra leiða til aukinnar hagræðingar og hagnaðar. Hér ganga um 5--6 þúsundir manna atvinnulausar á meðan vinnan er flutt úr landi, fullvinnslan fer fram erlendis. Það hlýtur að vera keppikefli fyrir sveitarfélög og stjórnvöld að gert sé sem mest úr þeim litla afla sem berst á land, auk þess sem fullvinnsla er gjaldeyrisaukandi og skapar aukna þörf fyrir vinnuafl í landi.
    Eins og fram kemur í þáltill. sem hér er til umræðu þá erum við Íslendingar enn að stórum hluta hráefnisútflytjendur. Við höfum verið að flytja út óunninn fisk í miklum mæli og oft leiðir slíkur útflutningur til þess að hráefnið tapar gæðum sínum. Það er mjög slæmur vitnisburður um kunnáttu okkar í meðferð á fiski. Við eigum að fullvinna þessa vöru okkar. Með tilkomu EES-samningsins hafa möguleikar okkar margfaldast í fullvinnslunni. Neytendamarkaðir í Evrópu hafa tilhneigingu til að færa framleiðsluna nær hráefninu og þar erum við Íslendingar á heimavelli. Með úrvalshráefni í höndunum ásamt öflugu vöruflutningakerfi getum við í framtíðinni byggt upp öflugan matvælaiðnað með fullvinnslu. Ég er viss um að við eigum eftir að naga okkur í handarbökin og sjá eftir að hafa ekki mótað skynsamlegri stefnu hvað varðar nýsköpun og fullvinnslu.
    Það er nöturlegt að hugsa til þess að rekstrarskilyrði fyrirtækja í sjávarútvegi eru gjörsamlega óviðunandi og má þar nefna þætti eins og raforku, vexti og aðrar álögur. Í frv. leggja flutningsmenn mikla áherslu á nýsköpun og fullvinnslu. Aðilar sem hyggja á nýsköpun þurfa að leggja út stórar fjárhæðir til að koma slíku á stofn, þ.e. í formi véla og vinnslulína. Kostnaður er mikill en allt fer þetta eftir umfangi. Það sér hver í hendi sér að til að svona dæmi gangi upp þurfa að koma styrkir frá hinu opinbera, þ.e. fé í formi víkjandi lána eða langtímalána auk styrkja sem eitthvað kveður að. Þess vegna verða stjórnmálamenn að hafa eitthvað fyrir sér annað en orðin tóm þegar talað er um að veita beri aukið fjármagn í nýsköpun.
    Því miður er sjóða- og styrkjakerfið í algjörum ólestri. Sjóðir eru fáir og algjörlega fjárvana auk þess sem ávöxtunarkrafa þeirra gerir jafnvel stöndug fyrirtæki gjaldþrota á fáum árum. Ég hvet hv. flutningsmenn til að kynna sér sjóða- og styrkjakerfið fyrir nýsköpun og sjá í hvers konar ólestri það er. Stjórnvöld verða að snúa vörn í sókn og vinna að því öllum árum að nýsköpun verði áhugavert verkefni fyrir einstaklinga og hvetjandi í stað þess að skapa þannig aðstæður að fyrirtæki sem leggja út í þetta eigi von á því að lognast út af.
    Þegar fyrirtæki geta sýnt fram á arð í fullvinnslu og nýsköpunarverkefnum sínum ættu stjórnvöld að beita sér fyrir stuðningi við þau en ekki að láta sem þetta sé þarft einstaklingsframtak með klappi á bakið og ósk um velfarnað.
    Það er eins og ég sagði mikilvægt að tengja saman skóla og atvinnulíf. Útkoman af þessu samspili á ekki eingöngu að vera betri menntun, þótt hún sé auðvitað mjög mikilvæg, heldur þarf þetta líka að skila sér út í atvinnulífið. Það er einungis hægt ef fyrirtæki geta tekið við þessu fólki, fyrirtæki sem eru í nýsköpun og fullvinnslu sjávarfangs. Þessum fyrirtækjum þarf að skapa rekstrargrundvöll svo að kunnáttu þess fólks sem kemur úr skólanámi með verkmenntun verði hægt að nýta.
    Í fljótu bragði get ég vel séð fyrir mér að framhaldsskólinn í Vestmannaeyjum sé vel til þess fallinn að byggja upp námsbrautir á sviði sjávarútvegs. Í Vestmannaeyjum byggist stór hluti atvinnunnar á störfum í sjávarútvegi og möguleikar á öðrum störfum því mjög takmarkaður. Á svæði eins og í Vestmannaeyjum er allt til staðar hvað við kemur sjávarútvegi, togarar, minni og stærri skip, frumvinnsla og

fullvinnsla. Við megum ekki gleyma því að framtíð íslensks þjóðfélags mun byggjast á því hverju sjávarútvegurinn getur skilað þjóðinni. Því er okkur mikill akkur í að gera sem mest úr fiskinum en ekki flytja atvinnu úr landi. Um 80% af útflutningstekjum þjóðarinnar eru sjávarafurðir og nær allur hagvöxtur síðustu ára hefur orðið til vegna framleiðniaukningar í greininni. Efnahagslegur ávinningur þjóðarinnar eykst með fullvinnslunni. Breytingin sem á sér stað frá því að flytja út frumframleiðsluvöru í neytendapakkningar leiðir ekki aðeins til aukinnar atvinnu og þekkingar á matvælaiðnaði heldur einnig til meiri verðstöðugleika í útflutningi sjávarafurða frá Íslandi og þar með stöðugleika í þjóðartekjum. Með minnkandi veiðiheimildum og miklum samdrætti er mikilvægt að nemendur á sjávarútvegsbrautum læri til hlítar lög um stjórn fiskveiða og þeir geti metið kosti hennar og galla. En það sem menn verða að gera er að setjast niður og reyna að finna lausn á því hvernig á að skapa landvinnslunni lífvænleg skilyrði. Það er alls ekki gert í dag.