Úttekt á kjörum fólks er stundar nám fjarri heimabyggð

47. fundur
Föstudaginn 02. desember 1994, kl. 11:43:45 (2153)


[11:43]
     Flm. (Gunnlaugur Stefánsson) :
    Hæstv. forseti. Ég flyt till. til þál. ásamt hv. þm. Gísla S. Einarssyni og Sigbirni Gunnarssyni er hljóðar svo með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa nefnd er geri úttekt á kjörum og stöðu fólks er stundar nám fjarri heimabyggð og geri tillögur er tryggi því sambærileg kjör og réttindi við námsfólk er stundar nám í heimabyggð.
    Nefndin athugi sérstaklega:
    1. hvort námsfólk, er stundar nám fjarri heimabyggð, verði af réttindum og félagslegri þjónustu ef það heldur lögheimili í heimabyggð,
    2. á hvern hátt Lánasjóður íslenskra námsmanna styður námsfólk í námi fjarri heimabyggð og hvort sjóðurinn taki í raun sérstakt tillit til slíkra aðstæðna.
    Með leyfi forseta segir m.a. í greinargerð:
    ,,Fjölmargir þurfa að stunda nám fjarri heimabyggð þar sem ekki er boðið upp á viðkomandi námskost heima. Ljóst er að slíkt hefur í för með sér mikinn kostnað og röskun á persónulegum högum. Það hlýtur að teljast alvarlegt ef námsmaður í námi fjarri heimabyggð nýtur ekki allra þeirra almennu réttinda og félagslegrar þjónustu á námsstað nema hann flytji lögheimili sitt þangað. Þetta á t.d. við barnafólk í námi utan heimabyggðar en aðgangur þess að leikskólum á námsstað er mjög takmarkaður ef lögheimili er haldið í heimabyggð. Þá er líklegt að fólk neyðist til að flytja lögheimili sitt en það kann þá að verða af annarri aðstoð vegna raunverulegrar búsetu sinnar. Þá er mikilvægt að athuga hvort þetta fólk eigi ekki að njóta allra lögheimilisréttinda á námsstað þótt það haldi lögheimili í heimabyggð.
    Jafnrétti til náms er hornsteinn í menntastefnu lýðræðisþjóðar. Staðsetning menntastofnana í landinu hefur án efa haft mikil áhrif á búsetuþróun síðustu ár og átt þátt í mikilli byggðaröskun. Það er því löngu tímabært að gerð verði ítarleg úttekt á kjörum og stöðu námsfólks í námi fjarri heimabyggð. Lánasjóður íslenskra námsmanna gegnir mikilvægu hlutverki hvað varðar jöfnun námsaðstoðar. Brýnt er að kanna nákvæmlega hvernig sjóðnum hefur tekist að rækja þetta hlutverk sitt gagnvart fólki í námi fjarri heimabyggð og hvort hann taki í raun nægjanlegt tillit til slíkra aðstæðna.``
    Hæstv. forseti. Í lögum um Lánasjóð ísl. námsmanna frá 25. maí 1992 segir m.a. í 3. gr.:
    ,,Stjórn sjóðsins er heimilt að taka tillit til búsetu og annarra atriða er áhrif kunna að hafa á fjárhagsstöðu námsmannsins.
    Stjórn sjóðsins setur nánari ákvæði um úthlutun námslána.``
    Það er mjög mikilvægt í sambandi við Lánasjóð ísl. námsmanna að fram fari í sambandi við þetta mál úttekt á því hvernig Lánasjóður ísl. námsmanna hefur nýtt sér þessa heimild í 3. gr. laganna og hvernig staðið er að námsaðstoð við fólk sem þarf að fara úr heimabyggð, stundum langan veg, til þess að geta notið menntunar í þeim skóla sem það óskar en ekki er boðið upp á í heimabyggð. Það þarf ekki að rekja það fyrir neinum hve mikil röskun felst í því að þurfa að flytja búferlum til þess að setjast á skólabekk. Því fylgir mikil röskun og ég efast um að þeir átti sig á því fyrr en þeir reyna það sjálfir. Það er ekki einvörðungu um félagslega röskun að ræða á högum fólks heldur kostar þetta mjög mikla peninga líka. Mér er kunnugt um að þetta hefur m.a. valdið því að fjölmargir sem ella hefðu viljað njóta mennta hafa ekki getað gert það, einfaldlega vegna þess að þetta felur í sér svo mikla röskun. Þess vegna er það mjög mikilvægt að það verði kannað mjög ítarlega á hvern hátt hægt verður að koma til móts við þessar aðstæður í ríkari mæli. Það er t.d. mjög alvarlegt ef barnafólk, fjölskyldur þurfa að flytjast búferlum um nokkurt skeið vegna náms foreldra og fjölskyldur njóta ekki almennra réttinda á námsstað vegna þess að fjölskyldan heldur lögheimili sínu í heimabyggð. Auðvitað eru það mannréttindi hvers og eins að eiga heima heima hjá sér og vera skráður til heimilis heima hjá sér þó að fjölskylda þurfi um stundarsakir að dvelja í öðru byggðarlagi vegna þess að foreldrar eru í námi sem ekki er boðið upp á heima í héraði. Þetta gildir t.d. um börnin. Ég þekki allnokkur dæmi þess að námsmaður hafi einfaldlega þurft að flytja lögheimili sitt úr heimabyggð á námsstað til þess að eiga aðgang að barnaheimili á námsstaðnum. Er ekki eðlilegt að sá sem neyðist til þess að flytja tímabundið, jafnvel einvörðungu yfir veturinn, að hann njóti þessara almennu réttinda á þeim stað þar sem skólinn er hýstur sem viðkomandi nemandi er í, þ.e. ef ekki er boðið upp á sambærilegt nám í heimabyggð.
    Þetta hefur nokkuð verið rætt á meðal stúdenta og þeir hafa afgreitt tillögur um að þetta verði skoðað sérstaklega. Ég held að það sé kominn tími til að það fari fram nákvæm úttekt og athugun á þessum málum og öðru er lýtur að hag námsfólks sérstaklega sem neyðist til þess að flytja úr heimabyggð í annað byggðarlag til þess að nema fræði sem ekki er boðið upp á heima í héraði.
    Hæstv. forseti. Ég geri það að tillögu minni að loknum þessum umræðum að tillögunni verði vísað til hv. menntmn. og til síðari umræðu.