Úttekt á kjörum fólks er stundar nám fjarri heimabyggð

47. fundur
Föstudaginn 02. desember 1994, kl. 12:16:16 (2159)


[12:16]
     Flm. (Gunnlaugur Stefánsson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það kemur hv. þm. Jóhanni Ársælssyni eflaust á óvart að stjórnarþingmenn skuli enn og aftur á þessu kjörtímabili hafa forustu fyrir umræðum um lífskjaramál á landsbyggðinni vegna þess að það hefur lítið farið fyrir virkilegum og raunhæfum málum af hálfu stjórnarandstöðunnar er snúa að því að reyna að styrkja stöðu og hag fólksins á landsbyggðinni. Hv. þm. finnst það skrýtið að það skuli einmitt vera Alþfl. sem hafi haft forustu fyrir þessum umræðum núna síðustu daga. Það er ekki vegna þess að ríkisstjórninni hafi mistekist eða tekist illa upp í þessum efnum. Þvert á móti. Þetta er fyrst og fremst yfirlýsing um að það þarf að huga núna sérstaklega að þessum tveimur áherslumálum sem hér hafa verið til umræðu, þ.e. annars vegar stöðu námsfólks á landsbyggðinni er stundar nám fjarri heimabyggð og svo hins vegar að vöruverðinu þar sem það er hæst á landsbyggðinni. Þetta eru stórmál og sannarlega ástæða til þess að þau séu rædd ítarlega í þinginu og úr þeim umræðum verði einhver niðurstaða. Þess vegna er þetta engin yfirlýsing um það að ríkisstjórninni hafi mistekist. Þvert á móti. Það eru að skapast jafnvel skilyrði til þess að nú getum við tekið þessi mál föstum og góðum tökum og reynt að sýna enn meiri árangur en gerst hefur. Þau mál eru líka þess eðlis mál að þau verða ekki leyst í einu vetfangi og í eitt skipti fyrir öll. Það veit hv. þm.