Úttekt á kjörum fólks er stundar nám fjarri heimabyggð

47. fundur
Föstudaginn 02. desember 1994, kl. 12:18:37 (2160)


[12:18]
     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Menntastefnan hefur verið í endurskoðun hjá hæstv. ríkisstjórn. Tillögur um þá hluti eru komnar fram. Hv. þm. ber þá fram sínar hugmyndir um það hvernig eigi að standa að þessum málum. Auðvitað hefði við þá endurskoðun átt að fara yfir þessa hluti sem hér er verið að leggja til að verði skoðaðir. Það er ekki boðlegt að bjóða mönnum upp á það meðan ríkisstjórnin er með yfirlýsta stefnu í því að leggja fram frv. um menntamálin og þau eru komin fram að þá skuli ekki hafa verið farið yfir þessi mál og það eigi að fara að snupra stjórnarandstöðuna fyrir það að hafa ekki komið fram með tillögur í þessum málum. Ég tel það ekki boðlegt enda hafa tillögur stjórnarandstöðurnar í hinum aðskiljanlegustu málum ekki hlotið náð fyrir augum meiri hlutans á hv. Alþingi.
    Ég ætla ekki að fara að ræða upp á nýtt tillögu um vöruverð á landsbyggðinni sem hér var til umfjöllunar. Ég held að hún hafi verið afgreidd ágætlega við umræðurnar þegar þær fóru fram. En það má minna á það þegar hv. þm. auglýsir eftir tillögum okkar landsbyggðarmanna að það voru settar auknar álögur á vörur sem fluttar eru út á land með því að setja sérstakt vörugjald sem lagðist á vöruna jafnvel tvisvar og þrisvar sinnum og hefur valdið verulegri hækkun á vöruverði landsbyggðinni. Þannig hefur ríkisstjórnin verið að vinna að þessu á öfugan veg á við það sem hv. þm. er að tala um að þurfi að gera.