Úttekt á kjörum fólks er stundar nám fjarri heimabyggð

47. fundur
Föstudaginn 02. desember 1994, kl. 12:22:50 (2162)


[12:22]
     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Að heyra á endemi. Ef það á nú að verða þannig að hv. stjórnarliðar ætli að fara að hæla sér af því að þeir séu á einhvern sérstakan hátt landsbyggðarvænir. Ég bið nú hv. þm. að halda þessa ræðu yfir Austfirðingum. Ég efast um að hann geti fundið mjög mikið af tilefnum til að hæla sér af því þar að menn hafi verið að gera einhverja stórkostlega hluti fyrir landbyggðina og byggðirnar yfirleitt í landinu. Í upphafi kjörtímabils þessarar ríkisstjórnar fundu menn upp orðið vaxtarsvæði. Út frá því varð mikil umræða. Það urðu miklar umræður um byggðamál á þessu kjörtímabili og hefur ítrekað verið haldið uppi af stjórnarandstöðunni en auðvitað ekki stjórnarliðum. Það ætti að vera hv. þm. í fersku minni að yfirleitt hefur vantað alþýðuflokksmenn í allar þær umræður sem hér hafa farið fram um byggðamál á þessu kjörtímabili og það hefur nánast verið einsdæmi ef alþýðuflokksmenn hafa mætt í þær umræður. ( GunnS: Þetta er rangt.) Það er ekki rangt. Við höfum staðið hér í löngum umræðum um byggðamál þar sem varla hefur komið fyrir að það hafi nokkur annar maður en hv. þm., og það má hann eiga, tekið til máls fyrir Alþfl. Ég held að það segi sitt um það hve mikinn áhuga alþýðuflokksmenn hafa á að verja málstað sinn í byggðamálum.