Úttekt á námskrám og kennslubókum með hliðsjón af jafnréttislögum

47. fundur
Föstudaginn 02. desember 1994, kl. 13:57:34 (2170)

[13:57]
     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegur forseti. Þó ég sé einn af flm. þessarar tillögu þá langar mig til að leggja nokkur orð í belg varðandi þessi mál. Að dómi okkar kvennalistakvenna er hér um mjög brýnt mál að ræða. Það er alveg ljóst að við Íslendingar höfum dregist langt aftur úr hvað varðar námsbókagerð og kennslu sem beinist að því að byggja bæði kynin upp til starfa og ábyrgðar í nútímaþjóðfélagi, kennsluefni og kennsluaðferðir sem beinlínis beinast að því að styrkja stúlkur og konur og efla þær til dáða í samfélaginu.
    Af þessu tilefni vil ég segja frá því hér að ég átti þess kost að ferðast um Bandaríkin í september og þar komu skólamál mjög við sögu. Ég heimsótti þar nokkra kvennaskóla og háskóla og það var ákaflega fróðlegt að sjá það og heyra hvað skólar í Bandaríkjunum, á æðri stigum fyrst og fremst, leggja mikla áherslu á kennslu sem beinist að því að styrkja stúlkur, ala þær upp til að verða ábyrgir þegnar í samfélaginu, til þess að verða leiðtogar og stjórnendur og til þess að konur öðlist sinn réttmæta hlut í stjórnun og mótun samfélagsins. Það er einnig mjög athyglisvert að sjá hvað konur eru að sækja í sig veðrið bæði í kvennarannsóknum og stjórnum skóla. Mér er það sérstaklega minnisstætt að kona sem var aðstoðarrektor eins af háskólunum sem ég heimsótti í Kaliforníu benti á þá staðreynd sem gildir einnig hér á landi að konur eru orðnar meiri hluti nemenda í allflestum háskólum. Þær hafa sótt mjög mikið inn í háskólana og hún sagði að þetta leiddi til þess að stjórnendur háskóla yrðu að spyrja nýrra spurninga: Hvað á að kenna? Hverjum er verið að kenna? Hvaða þekkingu kemur þessi nýi hópur með inn í skólana? Hver er þörfin? Hún er ekki sú sama fyrir karla og konur. Það er ekki endilega verið að leita eftir því sama og þar af leiðandi þarf að laga skólastarfið að mismunandi hópum.
    Það sem hér um ræðir er það að við lítum á grunnskólann hér og framhaldsskólann en það þarf að líta á háskólana líka því eins og ég nefndi hér áðan þá erum við langt á eftir. Ég þekki þetta frá minni reynslu sem sögukennari hvílíkur munur það var að fá nýjar kennslubækur bæði í Íslandssögu og mannkynssögu þar sem búið var að flétta inn í námsefnið nýjustu rannsóknum á kvennasögu og hvað það var allt, allt önnur aðstaða að geta höfðað sérstaklega til þessa hóps námsmanna, þetta voru stúlkur í meiri hluta í þeim skóla sem ég kenndi. Allt í einu stóðu þær frammi fyrir því að vera að læra námsefni sem snerti þær sjálfar persónulega, í stað þess að hafa alla tíð verið að lesa um heim sem var og er þeim býsna fjarlægur. Það eru margar aðferðir til í þessum efnum, bæði að blanda inn í námsefnið, hafa sérstakt námsefni og þegar kemur nú að því máli að ala pilta og stúlkur upp í foreldrahlutverkið og það að gæta jafnréttis og jafnræðis í samfélaginu, þá þarf að taka miklu betur á en nú er gert. Það er áhyggjuefni að heyra raddir kennara úr skólum, ekki síst úr framhaldsskólum, sem hafa miklar áhyggjur af því hversu illa við búum nemendur okkar undir líf og starf og ekki síst undir einkalífið svona eftir því sem hægt er. Þarna þarf virkilega að taka á.
    Ég vil minna á það sem kom upp í umræðum, ég held að það hafi verið í síðustu viku hjá hæstv. félmrh., sem á sínum tíma fékk samþykkta hér tillögu um kennslu í fjármálum, fjármálum heimilanna. Þetta tengist þessu sama efni líka og mér vitanlega hefur ekkert verið gert í þessu. Það þýðir lítið að við séum að samþykkja markmið í jafnréttislögum, samþykkja jafnréttislög þegar kemur svo aftur og aftur að því sama að lögunum er ekki framfylgt. Manni er að verða það æ ljósara hvílíkur galli er á okkar framkvæmdarvaldi að það fylgir ekki eftir samþykktum lögum. Þessi tillaga gengur út á að nú verði gerð úttekt á stöðunni í þessum málum. Mætti í því samhengi leggja áherslu á að nefndin kynni sér það sem gert hefur verið í öðrum löndum þar sem verulegt starf hefur átt sér stað, bæði á Norðurlöndunum og einstaka Evrópuríkjum og svo í Bandaríkjunum og Kanada sérstaklega. Þetta snertir allt framtíð þjóðarinnar, ekki aðeins það samfélag jafnréttis og réttlætis sem við viljum sjá hér heldur hreinlega að bæta líf einstaklinganna. Bæta einkalífið, gera fólk ábyrgara gagnvart þeim litlu einstaklingum sem flestir lenda í að ala upp og þar með að bæta mannlífið allt.