Tengsl ferðaþjónustu við íslenska sögu

49. fundur
Mánudaginn 05. desember 1994, kl. 15:18:09 (2179)


[15:18]
     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Ég hef að vísu bara etið hjá einum af þessum nefndarmönnum, frú Erlu Kristjánsdóttur, og ég fullvissa hv. þm. um að hún er mjög þjóðleg í matargerð sinni. Að öðru leyti hlýt ég að verða að segja það að ég hélt að ég hefði einmitt lagt mig fram um það að reyna að fá til starfa fólk sem hefði sérfræðiþekkingu og væri mjög vel að sér á þessu sviði. Jón Böðvarsson cand. mag. er auðvitað þjóðkunnur fyrir ferðir sínar á Njáluslóðir, í Dalina og upp í Borgarfjörð, og enginn maður sem betur hefur, svo ég viti til, sameinað þetta tvennt, þekkingu á landinu og sögunni og menningunni.
    Valgarður Egilsson er sömuleiðis mjög fróður. Hann er læknir en hann er líka skáld og mjög gagnkunnugur sögu lands og þjóðar og hefur mikla sérþekkingu þar á mörgum sviðum.
    Margrét Hallgrímsdóttir er fornleifafræðingur og borgarminjavörður og hefur af þeim sökum átt gott samstarf við minjasöfnin víðs vegar um landið og þekkir því starfshætti okkar Íslendinga vel. Auðvitað má deila um það hver sé best valinn er ég hygg að þar sé líka vel valið og var mér bent á að hún mundi falla vel inn í þennan hóp.
    Erla Kristjánsdóttir er mjög kunnug íslenskum bókmenntum og kemur með þeim hætti inn í þessi mál og mjög kunnug hér á landi.
    Gunnlaugur Eiðsson kemur sem fulltrúi leiðsögumanna inn í hópinn og hann er sömuleiðis mjög vel að sér í þessum efnum. Ég hef lagt mig fram um það að reyna að velja fólk frá því sjónarmiði að það hafi eitthvað fram að leggja og ég vona að þeir tilburðir mínir muni sanna sig að það muni vera vel valið í nefndina.